Færslur: 2008 Apríl

18.04.2008 23:38

Mótþróaskeiðið.

   Það var ekki slegið slöku við í Dalsmynni í dag (frekar en hina 364 dagana). Atli var að keyra skeljasand fyrir nágrannann en við Katla vorum framundir  hádegi að gera sturtuvagninn okkar kláran í skeljasandinn. Það kostaði símtöl og spæjaravinnu að finna afturhlerann og síðan þurfti að græja hann til svo allt passaði. Það var svona stórsleggjuviðgerð. Þetta varþví engin bókmenntadagur hjá Kolbrúnu Kötlu því hún var svo fegin að komast inn og í dótið sitt að ekki var minnst á bókalestur. Þetta minnti mig á að Móðir mín minnist oft á það(samt ekkert of oft), að ég hafi verið alveg einstaklega þægt barn. Ekkert verið til vandræða fyrr en ég komst á "mótþróaskeiðið".  Reyndar hef ég aldrei spurt hana að því hversu lengi það stóð. Eflaust halda nokkrir(örfáir) því fram að ég sé á " mótþróaskeiðinu" enn og verði um ókomna tíð.. Það var síðan keyrður skeljasandur frá Skógarnesi eftir hádegi.
  Í gær lauk ég við að hræra upp í haughúsinu við gamla fjósið sem tekur síðan dagpart að tæma . Meðleigjandi minn að mykjudreifaranum kláraði í dag  svo morgundagurinn fer í mykjuslúttið þetta vorið. Síðan var rebbarúntur no.2 tekinn og nú sáust 2 mórauð álengdar en kvöldrökkrið  bjargaði þeim í þetta sinn.

17.04.2008 23:29

Veðurfræðingarnir.

    Gömlum kunningja mínum (blessuð sé minning hans) leið alltaf hálfilla þegar gerði góða tíð. Honum varð tíðrætt um að okkur myndi nú hefnast fyrir þetta, hvað skyldi þetta nú kosta okkur o.sv.frv.?. Lengi vel maldaði ég í móinn taldi veðurkerfin ekki sett upp með þetta í huga og færði fram ótal skynsamleg rök gegn þessum fullyrðingum en allt kom fyrir ekki. Þá breytti ég um stíl og fór að hafa miklar áhyggjur. Færði þær jafnvel í tal að fyrra bragði og var uppfullur af bölsýni ef ég hitti kunningjann og það var eindreginn þurrkur á heyskapartíma, eða bara bongóblíða svona óverðskuldað.
 Þá gerðist það að því formyrkvaðri sem ég var af áhyggjum yfir þessu óverðskuldaða tíðarfari þá reyndi kunninginn að slá á mestu áhyggjurnar hjá mér. Þetta yrði nú kannski ekki svo slæmt og óþarfi að hafa áhyggjur svona fyrirfram og honum tókst nú oftast að róa mig niður og við gátum farið að tala illa um náungann eða fara í eitthvað enn skemmtilegra umræðuefni. Nú velti ég því fyrir mér hvernig stóð á því að ekki var glaðst yfir vondu veðurköflunum sem hlytu samkvæmt þessari kenningu að leiða af sér góðviðriskafla sem væntanlega yrðu því lengri og betri sem veðrið hefði verið leiðinlegra.Það er ekki í fyrsta skipti sem góðu rökin uppgötvast ekki fyrr en umræðunni er lokið. Nú held ég að sé rétt að taka upp trú á þetta veðurkerfi kunningjans  með áorðnum breytingum og velta því fyrir sér hversu lengi þessi góðviðriskafli verður.

16.04.2008 23:22

Stokkendurnar og homo sapiens.

        Það var stafalogn í morgunsárið og tjörnin alveg spegilslétt. Án þess að ég ætli nokkuð að kvarta yfir veðurfarinu hér, er nokkuð ljóst að ekki væri haft orð á þessu ef þetta væri daglegur viðburður.
        Stokkandahjónin létu aðeins heyra í sér þegar hundarnir mínir, og annarra marseruðu út en hreyfðu sig ekki, trúlega til að leyfa mér að njóta þess að sjá tjörnina í þessu sjaldséða ástandi. Það er um hálfur mánuður síðan stokkandarparið birtist á tjörninni. Þau koma í birtuskilunum á kvöldin , stundum seinna og þegar ég er að telja störnurnar , heyrist  kannski vængjaþyturinn þegar þau renna annars hljóðlaust á náttstaðinn. Þau hafa síðan  yfirgefið svæðið þegar ég kem inn í morgunkaffið. Trúlega dóla þau til hans Einars að hirða upp korn frá liðnu hausti en hann nýtur gríðarlegra vinsælda hjá fiðurfénaðinum þessa vordaga..
 Þegar kemur að varpi láta þau sig hverfa, vita að það er engu að treysta þegar mannskepnan er annarsvegar og ekki eru hundaófétin á bænum traustvekjandi. Assa langverst,  en hún getur verið að sulla í tjörninni allan daginn ef því er að skipta. (Húsmóðirin verður alltaf jafn ánægð þegar Assa skýst svo inn í þvottahús öðru hvoru til að hrista sig.) Ég gleymi hinsvegar seint deginum fyrir mörgum árum þegar ég var að slá á fullu og sláttuvélin lenti á andarhreiðri með kollunni og eggjunum. Trúlega kollunni minni af tjörninni. Ég hef reyndar velt því fyrir mér seinna, hversvegna margreyndur dráparinn tók þetta svona nærri sér. Nokkrum dögum áður hafði ég t.d.gjöreytt  refafjölskyldu án þess að það héldi fyrir mér vöku. Þetta lýsir trúlega tvöfeldninni í homo sapiens.
 Hvað um það, nú eru veðurguðirnir ósparir á blíðviðrin, aðalhaughúsið tæmt og langtímaspáin uppfyllir gjörsamlega allar kröfur undirritaðs.
 
Flettingar í dag: 237
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808465
Samtals gestir: 65357
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:51:13
clockhere