27.10.2012 20:49

Útsmognar gæsir og öndvegis tíðarfar.

 Þó ég sé fyrir löngu búinn að læra að lifa með veðráttunni  sem í boði er á hverjum tíma, tuða ég gjarnan eitthvað þegar boðið hefur verið uppá rakna ótíð í lengri tíma.

  Áður var svo  sem ekkert verið að leggja slíka kafla á minnið og nú hverfa þeir fyrirhafnarlaust úr sífellt takmarkaðra minninu um leið og þeim lýkur.

  En óneitanlega hefur veðurfarið bein og óbein áhrif á afkomuna, þó ég og kollegar mínir í bændastétt eigi ekki jafnmikið undir því og Klettafjallaskáldið þegar honum varð að orði.

Ég er bóndi og allt mitt á,
undir sól og regni.

 Það situr þó í manni ef uppskerubrestur verður vegna veðurfars eins og s.l. ár í bygginu og hausttíð eins og þá, þegar ekki náðist einu sinni nothæfur hálmur.


 Rétt að taka fram að svörtu blettirnir eru sandur sem kom þegar rúllurnar voru lagðar niður til að stafla þeim uppá endann.

  Nú upplifir maður hinsvegar haust þar sem allt er í lukkunnar velstandi, bygguppskeran bara tekin áfallalaust þegar hún er tilbúin, hálmurinn loksins hirtur seint og um síðir vegna annríkis og vélabilana og síðast en ekki síst allar fjárleitir framdar í eðalsmalaveðri.

 Að sjálfsögðu er ég svo heppinn að akkúrat svona haust var ég dundandi  alla daga innandyra við fjárhúsbyggingu.

 
 Nú fer gæsinni að fækka á svæðinu enda hennar hlutur í bygguppskerunni minni en oftast áður vegna ólátalítils veðurfars. 


 Síðustu haust er eins og hún sé að breyta hegðunarmynstrinu og helgast það trúlega af því að henni líkar illa við síbreytilegar sóknaraðgerðir veiðimanna.  Reyndar var fullyrt við mig að þær alklárustu væru búnar að fatta framtíðarlausn á veiðimannavandamálinu og farnar að vitja akranna að næturlagi.



 Þessar komu þó í birtingunni og eru greinilega búnar að átta sig á að hér er ekki allt með felldu.



 Hér áttu þær þó góðan dag, enda eru þeir nú fleiri dagarnir  sem vopnahlé gildir en hinir.

Já þetta sumar og haust fá góð eftirmæli hér allavega hvað veðurfar varðar.

Flettingar í dag: 88
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 278
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 413442
Samtals gestir: 37129
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 08:47:05
clockhere