09.08.2012 23:04

Það getur tekið í að þramma menntaveginn.

 AMMA, ég er að verða 6 ára, ég stækka heilmikið við það sagði dótturdóttirin með samblandi af hneykslan og sannfæringu í röddinni. Kannski  um næstum 7 km.( ? ) bætti hún við með þungri áherslu. 

Gamla settið var í heita pottinum ásamt dótturdótturinni og í framhaldi af umræðu um væntanlegan menntaveg hafði ömmu orðið á að spyrja um hvort ekki þyrfti að fjárfesta í nýrri skólatösku fyrir úthaldið. 

  Að sjálfsögðu var það mjög brýnt en í framhaldinu kom í ljós að það vantaði nú sitthvað fleira ef skólagangan ætti nú að ganga hnökralaust fyrir sig.
 Framansögð ummæli féllu þegar amman var svo fávís að halda því fram að sú stutta gæti a.m.k. notað sundbolinn sinn eitthvað fram á veturinn. 


 Þarna er verið að skoða sjóreknar marglyttur í fjöruborðinu vestur á Arngerðareyri og fara yfir heimsmálin fyrir ári síðan.


  Ég gætti þess að blanda mér ekki í umræðuna þegar amman hélt áfram að malda í móinn og benda á að sundbolurinn væri hin glæsilegasta flík og ágætlega stór miðað við innihaldið.

 Ég er nú eldri en tvævetur og vissi að þarna var sú eldri með gjörtapað mál í höndunum.

Enda fór hún í það að sveigja umræðuna fimlega að öðrum og útgjaldaminni málaflokkum.

 Já það verður spennandi að fylgjast með hvað kemur uppúr plastpokunum þegar innkaupaferðum vegna væntanlegrar menntagöngu lýkur.

Flettingar í dag: 58
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 1482
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 448841
Samtals gestir: 41445
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 02:34:57
clockhere