05.08.2012 21:05

Búpeningur þjóðvegur og rússnesk rúlletta

 Það fylgja því ýmsir annmarkar að hafa þjóðveginn þvert í gegnum bújörðina og þegar sumarumferðin er sem mest er reynt að lágmarka alla umferð yfir veginn, hvort heldur er með tæki eða búfénað. Stundum tala ég um rússneska rúllettu þegar mér sýnist umferðarhraðinn vera kominn í góða þriggja stafa tölu.



 Kýrnar eru dálítið sérsinna og hafa misjafnan ferðahraða ef þær fá að ráða sér. Hér dóla þær niðurfyrir veg árla morguns og eru ekki sérlega umferðavænar enda sáralítil umferð um þetta leyti dags.


 Á heimleiðinni fer hinsvegar stundum að kárna gamanið sérstaklega um helgar. Þá eru hundarnir látnir smala þeim að hliðinu og síðan sætt lagi að drífa þær yfir veginn í þéttum hóp.



 Hundarnir hafa gott lag á þeim og kýrnar virða þá algjörlega svo það tekur örstutta stund að koma þessum 50 gripum yfir. 

 Strax og síðast kýrin er komin af malbikinu stökkva tíkurnar upp á fjórhjól ef það er til staðar og kýrnar fá að rölta heim á þeim hraða sem þeim hentar.



 Og ökuþórarnir bera mun meiri virðingu fyrir nautgripunum en sauðkindinni og oft hefur maður svitnað þegar verið er að koma lambfénu niður fyrir á vorin.



 Hér eru það Snilld og Vaskur sálugi að stoppa hóp af þar til húsbóndinn gefur grænt ljós á þjóðveginn.

 Það eru fyrst og fremst bílar á vesturleið sem ástæða er til að óttast því vegna mishæðar sjást gatnamótin ekki fyrr en komið er nokkuð nærri þeim.

Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1482
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 448790
Samtals gestir: 41437
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 00:12:24
clockhere