23.04.2012 08:20

Sinubruni. Brýn nauðsyn - nú eða fullkomnun fáránleikans.

 Nú er í gangi árleg hefðbundin umræða um sinubruna.

Dálítið einsleit umræða.

 Slökkvistjórinn minn hann Bjarni hjá Borgarbyggð var í Ruv að ræða málið og komst  vel frá því eins og vænta mátti.

 Þekkir hættuna sem fylgir þessum gríðarlega eldsmat sem orðinn er til á vannýttu landi, sem sumstaðar er svo illa komið í sinuórækt að það nær varla að grænka yfir sumarið.

En eins og maðurinn sagði er tvær hliðar á hverjum tening.

 Ég er í þeim hópi Skerbúa sem er að reyna að lifa á landsins gæðum þó gangi á ýmsu.
Nýti landið annarsvegar í grasrækt og akuryrkju og hinsvegar til beitar.

 Beitilandið er annarsvegar í fjallendi sem nýtist sauðkindinni yfir sumarmánuðina og hinsvegar í þurrkuðu mýrlendi á láglendinu.

 Þetta mýrlendi er ákaflega grasgefið og frjósamt land með mikilli sprettu, sem liggur ekki við að hægt sé að beita niður með eðlilegum hætti með þeim bústofni sem til er hér.

 Þetta land á að taka við lambfénu á vorin, fram í miðjan júní þegar því er sleppt til fjalls.
Síðan hafa kýrnar aðgang að því og ef það er í góðu ástandi er ótrúlegt að sjá hvað þær nýta sér það með annarri beit.



 Það er hinsvegar þannig að ef sina er á landinu er eins og féð vilji ekki koma nálægt því, jafnvel þó að gróðurnálin sé farin að sjást koma upp. Sama á við um nautpeninginn.

 Rétt eins og mér finnst Whiskeýíið ódrekkandi ef búið er að sulla vatni saman við það.

Hér er orðin til mikil fagmennska við sinubruna enda mikið í húfi fyrir bóndann að ganga rétt um landið til að hámarka afkomuna án þess að ganga á landgæðin.



 Landið þarf að vera hæfilega þurrt eða rakt  svo ekki brenni nema sinan sjálf. Það þarf að vera rétt vindátt og ekki minna en 5-6 m svo eldurinn fari nægilega hratt yfir án þess að ofhita jarðveginn.

 Það verður að viðurkennast að þau árin eru kannski fleiri sem aldrei nást réttu skilyrðin  svo menn verða að lifa við sinuna það árið.
 
Þetta vorið var öllum skilyrðum fullnægt og ljóst að meðalþyngd lambanna og vellíðan kúnna í sumarbeitinni er tryggð þetta árið.

 Nú er bara að bíða eftir fyrstu vorrigningunni og sjá þetta frjósama gróðurlendi verða fallega grænt á nokkrum dögum.
Flettingar í dag: 266
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 278
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 413620
Samtals gestir: 37163
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 22:48:23
clockhere