27.03.2011 08:59

Lubbi frá Hausthúsum.- Fyrsti alvöruhundurinn minn.

 Það var vorið 1970. 

 Ég var nýsloppinn í sveitina útskrifaður búfræðingur frá Hvanneyri, þegar sveitungi minn og frændi Gísli í Hausthúsum kom og gaf mér nokkurra mánaða hvolp.

 Á þessum tíma voru nokkrir nafnkenndir ræktendur sem ræktuðu  skoska hunda og tókst að halda þeim hreinum. Þessir hundar urðu oft afbragðs fjárhundar hjá þeim sem náðu tökum á þeim, en þá eins og í dag var það ekki öllum gefið og hundarnir eflaust misjafnir þá eins og nú. 

 Oftast blönduðust þessir hundar fljótt út hjá hinum almenna eiganda og uppistaðan í hundastofni landsins á þessum tíma voru allskonar blendingar og bastarðar sem voru vægast sagt misgóðir til þess sem þeir þurftu að gera.

 Hvolpurinn sem ég skírði Lubba var trúlega alveg hreinræktaður skoti eða Border Collie sem þessir skoskur hundar voru.



 Hann var að mig minnir kominn úr ræktun hjá Jóni á Saursstöðum í Haukadal sem var einn af þessum ræktendum sem lítið fór fyrir en vissi hvað hann var að gera.

 Þó að ætti mig lifandi að drepa er mér alveg ómögulegt að rifja upp hvernig staðið var að tamningunni á Lubba.
Á þessum árum var talsvert umleikis í fjárbúskap í Dalsmynni. Söðulsholtið nýtt að hluta undir fé og verið að vinna við kindur nánast alla daga ársins.

 Fénu var beitt miskunnarlaust allan veturinn og gefið fiskimjöl með beitinni, sauðburður fór fram að töluverðu leiti út um hagann og túngirðingar voru með dálítið öðrum hætti en nú.

 Trúlega hefur viljað svo heppileg til að ég hef ekki verið með annan hund á þessum tíma og farið að hafa hvolpinn með þegar hann hafði aldur til.
 Þar hefur síðan einhvernveginn náðst fullur skilningur milli okkar á því hvað mætti gera og hvernig, því Lubbi varð besti fjárhundur sem ég hef eignast hingað til. 
 Ég stjórnaði honum að mestu með bendingum og náði þannig hægri og vinstri skipunum algjörlega og einhvernveginn áttaði ég mig á því að stoppskipun væri nauðsynleg því hann var með hana á hreinu. Ég minnist hans ekki nema með þennan hárrétta vinnuhraða og góða fjarlægð ásamt glerhörku ef á þurfti að halda.

 Munurinn á Lubba og topphundunum mínum í dag var sá að hann gat unnið og vann mikið algjörlega sjálfstætt. Hann gat verið undrafljótur að læra á smalasvæðin eða átta sig á því hvað væri verið að gera og vann þetta síðan meira og minna afskiptalaust.

Og eins og áður segir var vinnulagið slíkt að hann hélt öllum árekstrum í algjöru lágmarki.

Á þessum tíma vorum við með beitarhús/bragga ofan túngirðingar neðan við hlíðina.

Féð lá þar við opið og þegar kom fram í apríl fór það að leita inn á dal.
Eftir því sem leið á fór það að skila sér verr í kvöldgjöfina og kom að því að ég þurfti að smala því heim.
Það var gert þannig að ég fór það langt að sæist um dalinn og síðan var Lubbi sendur inn hlíðina og smalaði hann þá dalinn til baka.
Einhverntíma var ég upptekinn og ákvað að reyna að senda hundinn heimanað og sjá hvernig gengi.
Þetta gekk vel og innan klukkutíma var Lubbi kominn með allt féð.
  Hann fékk því að sjá um þetta en fljótlega kom að því að mér fannst honum dveljast fulllengi við verkið og ákvað að laumast í humáttina eftir honum og vita hvað væri í gangi.

 Lubbi skokkaði inn hlíðina eins og lög gerðu ráð fyrir en kindurnar dreifðust um mestallan dalinn austan árinnar. 
Þegar hann kom að götunni sem lá uppúr dalnum innan klettanna lyktaði hann vel fram og til baka og lagði síðan upp fyrir brúnina.


 Það leið drykklöng stund þar til hann kom með nokkrar kindur niður götuna, kom þeim vel niður í hlíðina og hélt síðan áfram inneftir. Þar hvarf hann aftur úr augsýn og kom nokkru seinna með annan hóp og síðan tók hann við að stugga fénu á dalnum heim á leið.

 Það rann uppfyrir mér að í þessari smalamennsku sinni hafði Lubbi tekið upp á því að fara fyrir allar slóðir sem lágu útaf leitarsvæðinu og ná því fé sem þær áttu.

  Lubbi var þó ekki gallalaus frekar en aðrir hundar og stærsti gallinn var sá að hann gat verið grimmur við fólk. Það þótti reyndar ekki tiltökumál þó til væru grimmir hundar á þessum tíma en þó maður liti framhjá því að hann nartaði í grannana, þótti mér skelfilegt að ekki var hægt að treysta honum gagnvart börnum.


 Það urðu til margar sögur af Lubba á þessum árum sem kannski rata hér inn síðar, en hann varð 14 ára gamall og fékk hægt andlát trúlega í svefni  sem hæfði þessum höfðingja.

Ég reyndi mikið að fá nothæfan hund undan honum en það tókst aldrei. Trúlega vegna þess að ekki var hreinræktuðum tíkum til að dreifa á svæðinu og ekki síður hinu að þegar ég náði upp hvolpum undan honum, fór ég að vinna með þá með föður sínum í þeirri trú að þeir myndu læra listirnar af .þeim gamla.

Svona var maður vitlaus þá.emoticon
 
Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414696
Samtals gestir: 37287
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:15:53
clockhere