26.09.2010 07:22

Er hann Tinni að ná sér??

Stundum gerist það þegar ég fæ ókunnan hund í hendurnar að það er eins og eitthvað smelli saman og við náum strax mjög góðu sambandi.

 Þannig var það með okkur Tinna þegar hann birtist hér í ág.sl.   Sjá hér.



 Það kom hinsvegar fljótt í ljós að hann stakk við á öðrum framfæti og það ágerðist þegar ég byrjaði að vinna með hann í kindum.

 Hann var því settur í bið og ákveðið að fara með hann í myndatöku og fá að vita hvað væri í gangi.
Fyrst var kíkt við á dýraspítalanum í Víðidal. Það var mikil upplifun fyrir tamningarliðið sem fór með hann þangað að setjast þar inná biðstofu með fullt af konum  sem voru með allskonar hundaafbrigði mismunandi mikið klædd og hlusta á umræðurnar um sjúkrasögu dýranna.

 Sú sem kíkti á Tinna sagði að ekki væri tími fyrir myndatöku. Það þyrfti að svelta hundinn því ekki yrði bógurinn myndaður án svæfingar. Hún lagði til að pantaður yrði tími í næstu viku , koma yrði snemma dags og þetta myndi taka langan tíma.

 Hún benti síðan vinsamlegast á að það væri fýla af hundinu og hann yrði að koma baðaður ! !

Þegar sá gamli heyrði þetta var hinn rómaði spítali í Víðidalnum afskrifaður snarlega.
Það var því mikill léttir þegar ræktendur Tinna, Staðarhúsabændur höfðu samband , sögðu Björgvin dýralækni verða hjá þeim daginn eftir og kæmi með myndavél með sér.

Engar kröfur voru gerðar um svelti eða baðferðir.
 Við Tinni mættum á staðinn, teknar tvær myndir og kveðinn upp úrskurður um leið.
Bólgur í vöðvafestingum við bóglið, sem hefðu trúlega komið af miklu höggi eða stuði framan á bóginn fyrir langalöngu.
 Taka yrði hundinn í lyfjameðferð og halda honum sem hreyfingarminnstum í 15 daga.

Með illu skal illt út reka sagði Björgvin þegar ég kvartaði fyrir hönd okkar Tinna um kvalræðið sem fylgdi 15 daga innilokun í búri, og vera svo í bandi við að sinna líkamsþörfunum utandyra.


Nú notar Tinni hægri framfót en eins og sést á myndinni er orðinn stærðarmunur á framfótunum vegna heltinnar.

 Nú fer að síga á þessa 15 daga og Tinni virðist vera óhaltur en það er ekki að marka því einhver verkjalyf eru í lyfinu.

 Hann hefur fóðrast mjög vel þennan tíma og þyngst sem hann þurfti að gera.

Það er gaman að sjá hvað honum líður vel og það er búin að safnast upp í honum gríðarleg orka og spurning hvort ekki fer allt úr böndunum þegar hann fær að leika lausum hala á ný.

Og sjaldan launar kálfur ofeldið því á sínum fyrstu dögum í sveitinni lék Tinni illa á mig og á nú von á erfingjum.


 Og aðalsmalatíkin mín hún Snilld verður víst í fríi í þriggja daga leitum sem í hönd fara næstu vikuna.

Fokkings.

 

Flettingar í dag: 233
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418896
Samtals gestir: 38062
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 19:00:55
clockhere