27.05.2010 07:30

Sauðburðarlok.

Síðasta ærin bar í nótt og er þetta trúlega í fyrsta sinn í búskaparsögunni sem sauðburði lýkur fyrir maílok.

 Þessi sauðburðarhrota fær góð eftirmæli, enda farið saman velgengni í lambahöldum og frábært vor.
Ekkert lamb hefur misfarist svo vitað sé sem hefur komist almennilega á lappirnar.

 Spáin mín um mikla frjósemi þetta vorið gekk ekki eftir, þó þetta endaði nú ásættanlega.

Það voru reyndar 10 þrílemdar af þessum rúmu 100 fullorðnu en 16 einlembdar sem er óvanalega dapurt.




Greinilega hefði þurft að taka tvævetlurnar fyrr í haust og dekra aðeins við þær svo þetta yrði í lagi.

Þar sem sú síðasta sem bar var tvílemd, er ljóst að síðasta þrílemban verður að ganga með þremur eins og tvær þær fyrstu en það tókst að venja undan hinum þrílembunum og tvílemdu gemsunum svo einlembuhópurinn var nú ekki alvondur.



 Þessar hér voru á leið í fjallið fyrir rúmu ári síðan og ekki verður sleppt seinna í ár.



  Vorverkin eru á fínu róli og aðeins eftir að bera á nokkur " rollutún" og síðan tún hestamiðstöðvarinnar.

 Það er reiknað með morgundeginum í það, og búið að panta smárigningu í framhaldinu.

Reyndar er orðið býsna þurrt um eftir langan þurrkakafla en ég vorkenni okkur vestlendingunum ekkert, en bændurnir á öskusvæðunum þyrftu hinsvegar að fá alvöru rigningar í smá tíma til bæta eitthvað ástandið þar.

Og það er aðeins að lifna yfir kosningarumræðunni í sveitinni. emoticon  

Flettingar í dag: 274
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418937
Samtals gestir: 38068
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 22:35:01
clockhere