27.04.2010 22:52

Við Vaskur í slæmum málum.

  Svanur komdu aðeins,sagði mín heittelskaða þar sem hún sat í tölvuverinu og þvældist um netheima.

 30 ára + sambúð hafði kennt mér það að svona málrómur þýddi bara eitt.

Það var verið að setja eitthvað ferli í gang þar sem ég yrði í tapliðinu.

Ég var ótrúlega lengi að koma mér að tölvunni.

Þar uppgötvaði ég, að það vorum við félagi Vaskur sem værum í vondum málum.

 Mín heittelskaða var semsé inni á heimasíðunni hjá henni Maríönnu á  Stórhól sem var nú útaf fyrir sig allt í lagi.

 Skandallinn var sá að þar var því lýst af mikilli nákvæmni hvernig hann Skundi sem er/ var fallega loðinn BC lenti í klippingu og leit eftir það út eins og ofvaxinn Poodle. Nú eða ljón sem var dálítið skrítið á litinn.

 Það er nefnilega búið að vera deilumál til margra ára hvort ekki væri rétt að taka hann Vask og snyrta hann dálítið.

 Við Vaskur þverneituðum því jafnan, vörðumst fimlega og bárum ýmsu við.

Yngri bóndinn sem er alltaf ákaflega tillögugóður þegar verið er að bögga þann eldri, lét gjarnan það álit í ljós í þessari umræðu að óvíst væri að sá með klippurnar myndi lifa af slíka aðgerð.

 Allavega væri ljóst að ekki dygði að setja bitmúlinn á villidýrið, heldur yrði að fá dýralækni til að svæfa hann meðan aðgerðin stæði yfir.


Það er ógaman að lenda á milli tannanna á fólki en að lenda á milli tannanna á Vaski hefur engum reynst gott.

 Það hafði verið fjárfest í bitmúlnum þegar kind no 2 lenti í saumaskap fljótlega í upphafi tamningar.

Reyndar var Vaskur ætlaður í sölu í upphafi, þar sem einungis tíkum var haldið eftir úr gotum, en í fyrsta lagi var hann fádæma erfiður í tamningu og í öðru lagi afrekaði hann það að bíta Rauðkollsstaðabóndann þrisvar á nokkrum mánuðum.

 Það var eftir það sem ég tók þá ákvörðun að þessi hvolpur myndi aldrei verða seldur.

Ég hef aldrei séð eftir þeirri niðurstöðu.

Ég hef reyndar heldur aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að láta fjarlægja úr honum kúlurnar í fyllingu tímans en það er önnur saga.

 Nú varð semsé ljóst að öll rök voru þrotin og einhver hársnyrting yrði ekki umflúin.

Sem betur fer erum við Vaskur fullir trúnaðartrausts hvor til annars.

 Þetta reyndist síðan mun auðveldara en rýja rollurnar því Vask fannst þetta bara skemmtilegt þegar til kom og lá við að hann malaði  á meðan snyrtingin fór fram.



 Mér finnst þetta nú samt vera meðferð sem ekki er höfðingja sæmandi og eins og sést hér að ofan er hann búinn að átta sig á að leikið hefur verið á hann.

En nú er ég búinn að sannfæra hann um að þetta sé allt Maríönnu á Stórhól að kenna.emoticon

Flettingar í dag: 552
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414200
Samtals gestir: 37239
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 15:19:16
clockhere