23.02.2010 22:31

1-0 fyrir lágfótu.-Gömul grenjasaga.

 Við skriðum varlega upp á síðasta holtið þaðan sem sást heim á grenið.

Klukkan var um níu að kvöldi.

Það voru um 500 m. á það og ekki fór á milli mála að þar var blómlega búið.
 Læðan fyrir utan og nokkrir stálpaðir hvolpar  kringum hana.

 Við áttum alveg eins von á því að þarna væri einstæð móðir í búskapnum, því um veturinn hafði refur af þessum slóðum lotið í gras. Það kom líka á daginn.

 Það hafði verið mikið basl á félögum mínum þarna árið áður, læðan orðið vör við þá og einfaldlega sást ekki meira.

 Nú átti að fara varlega í þetta og liggja í um 200 m. fjarlægð svo við biðum rólegir eftir að
að sú mórauða færi á veiðar. Það var nánast logn en sú litla gola sem var, stóð af greninu til okkar.



 Þegar hún yfirgaf grenið hélt hún eftir holtaröð til austurs beint framanvið okkur í um 400 m. fjarlægð.  Það var útilokað að hún hefði haft veður af okkur eða orðið vör við okkur en tvisvar stoppaði hún samt og leit  ákveðið í áttina til okkar.

 Við gáfum henni góðan tíma til að koma sér í burtu og komum okkur síðan að barðinu þar sem skyldi legið. Það gerði áttleysu um nóttina sem var bíbölvað sérstaklega í þessu tilviki og þó að færi ágætlega um okkur og við gætum fengið okkur kríu til skiptis leit þetta því verr út eftir því sem leið á nóttina.

 Við urðum alls ekkert varir við þá mórauðu hvorki í gegnum sjónauka eða fuglana á svæðinu.

Gallinn við staðsetninguna var sá að ekki sást mikið yfir svæðið og um fimmleytið fór ég á stjá upp á næsta holt og skannaði umhverfið.

Í u.þ.b. km. fjarlægð sat sú mórauða uppá háu holti og vissi greinilega að hér voru illmenni á ferðinni og hvar þeir voru staðsettir.

 Nú fór að styttast í fjós og ákveðið að fara leið B.

 Félaginn sendur heim en ég myndi færa mig á annan stað þar sem væri skotfæri á grenið annarsvegar, og á næsta holt hinsvegar en þar væri líklegt  að hún kæmi fram til að kanna hvort eitthvað óhreint væri eftir þegar hún sæi félagann fara.

 Sólin var löngu komin upp og það fór ekki hjá því að sækti svefn að bóndanum.

Enda fór svo að ég hafði dottið  út í um klukkutíma þegar ég hrekk upp.

 Eftir að hafa skannað svæðið fannst mér vera eitthvað í gangi hjá fuglum bakvið holt í áttina frá greninu og skömmu seinna kemur móra þar fram á holtið. Hún var utan færis og leit rannsakandi í áttina til mín áður en hún hvarf til baka. Þarna tók hún ekki vind af mér og í trausti þess að hún væri á leið á grenið setti ég mig í stellingar og beið hinn rólegasti.

 Þrem tímum seinna vissi ég að þetta væri orðin vonlítil barátta, hringdi í félagann og bað hann að koma og hjálpa mér við að kalla út yrðlingana.



 Við læddumst varlega upp í goluna  að greninu, settum okkur í stellingar og reyndum að kalla hvolpana út, ekkert gerðist. Eftir aðra tilraun fór ég að grenmunnunum og sannreyndi það að hér var galtómt greni.


      Þessi var ekki eins heppin þegar við hittumst fyrir tilviljun. Ekkert aukaskilningavit á ferðinni þar, nema kannski hjá mér

 Ég verð að viðurkenna það að ég fylltist hrifningu yfir snilldinni hjá lágfótu, þó ég reyni að telja mér trú um að það hafi verið grís hjá henni að koma að greninu og tæma það meðan ég svaf. Hún hafi svo tekið vind af mér á leið með hvolpahópinn austur holtin og í framhaldinu kíkt á mig þegar ég sá hana nývaknaður.

 Stundum er þó eins og eitthvað óþekkt skilningarvit sé í sumum rebbunum og er þó ekki á bætandi.

Já, það eru ekki alltaf jólin í veiðinni.emoticon
Flettingar í dag: 1281
Gestir í dag: 136
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 403022
Samtals gestir: 36633
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 20:05:52
clockhere