26.12.2009 23:31

Dugleg að lesa um jólin.- engar myndir.

 Þó maður sé mættur í fjósið alla morgna kl.6.30 eru jólin samt tími mikillar slökunar og værukærðar.

 Allavega hjá þeim sem eru eingöngu í því að njóta veislufanganna sem verða til um jólin.

 Eg er nú reyndar ákaflega lítill jólamaður í mér og í endurminningunni er ljósi punktur jólanna allar bækurnar sem komu í gjafapökkunum til heimilismanna en þær voru allar lesnar næstu dagana.

 Nú eru breyttir tímar og trúlega eru þetta fyrstu jólin mín sem ekki kemur ný bók uppúr pökkum heimilismanna. Enn þá eitthvað 2007 í gangi eða hvað?

 Stærsta jólagjöfin í ár var að hafa öll ( eða þannig) börn og barnabörn hjá sér á aðfangadagskvöld en það væri daufleg pakkaopnun að hafa ekki börn við hendina til að útbýta pökkum og aðstoða við opnun þeirra. Kolbrún Katla var góð í því og Aron Sölvi bráðefnilegur.

 Jólamessan var svo í dag.

 Til að létta á kirkjukór, presti og fleirum var það ákveðið í fyrra að hafa jólamessuna sitt árið í hvorri kirkju, Fáskrúðarbakka og Kolbeinstaðarkirkju.

 Messað var í  Fáskrúðarbakkakirkju í fyrra og  Kolbeinstaðarkirkju í ár.

 Það var bara gaman að lenda í messu hjá vinum mínum á Austurbakkanum og meira að segja þó nokkrir mættir í jólamessuna  af báðum bökkum..

 Mér hafði reyndar verið sagt að vinir mínir á Austurbakkanum væru nú ekki með þeim allra kirkjuræknustu og mætingin í dag hefði nú verið nokkur hundruð % meiri en undanfarið, ég legg náttúrulega engan dóm á slíkar sögusagnir.

 Hitt sýndist mér, að þeir sem ekki mættu, hefðu nú trúlega haft síst minni þörf á  því að koma, hlusta á guðs orð og varðveita það.  ( Bara svona hlutlaust vinalegt álit undirritaðs.)

 Já þetta lítur bara vel út og verið að bóka kaffi og matarboð, hægri, vinstri.

Nú verður að safna smá forða til mögru áranna 7 sem í hönd fara.

 Já, það er bara boðið uppá myndalaust blogg núna því allir eiga að vera duglegir að lesa um jólin.

Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 1246
Gestir í gær: 125
Samtals flettingar: 442449
Samtals gestir: 41011
Tölur uppfærðar: 16.5.2024 00:29:00
clockhere