30.09.2009 19:59

Gæsaveiðin á fullu.

  Nú er gæsaharkið í algleymingi og við akuryrkjubændurnir erum engir hálfdrættingar í því frekar en öðru.

 Það var löngum þannig í sveitinni, að vinir og kunningjar eða jafnvel einhverjir alókunnugir fengu að laumast um skurðakerfin og plaffa niður gæsir eftir hentugleikum, án þess að nokkrum heilvita manni/bónda dytti í hug að ætlast til greiðslu fyrir.

 Nú eru breyttir tímar og illþýðið í sveitinni er farið að selja mönnum aðgang að túnum, ökrum eða svæðum sem líkleg eru til þess  að virka til gæsaveiði.emoticon 

 Og rétt eins og í veiðimannahópnum er misjafn sauður í mörgu fé í bændastéttinni þegar kemur að veiðiharkinu.


 Svona veiðisvæði er mikils virði ef verðið væri ekki  jafn ókristlega lágt eins og hjá okkur.

  Verðið er nokkuð mismunandi eftir innræti viðkomandi bónda og hugsanlegum veiðilíkum og ýmist miðað við byssu eða morgunflug með tilteknum max byssufjölda.

  Hér er haldið utanum akurlendið  á þremur jörðum og ekki hleypt í veiði nema sést hafi fugl á akrinum í einn til tvo daga áður. Þetta þýðir nokkuð örugga veiði, og ef hver veiðimaður fer með 4-5 fugla eftir morgunflugið þá er ég ánægður. Oft eru þeir að fá meira og þó þeim sé gert að yfirgefa svæðið klukkan 10 þá hefur enginn kvartað yfir því.
 Þetta þýðir þó, að oftast er ekki veitt nema 3- 4 morgna í viku. Vegna þessa eru menn ekki bókaðir ákveðið einhverja tiltekna daga heldur eru skráðir niður og síðan látnir vita þegar er nokkuð örugg veiðivon.

 Þeir eru síðan gædaðir á veiðistað að morgni til að tryggja þetta allt eins og hægt er.


 Þessum leist  ekki á móttökurnar og reyndu að forða sér hver sem betur gat.

  Þeir sem geta mætt á virkum dögum eru betur settir í biðröðinni en hinir sem eru bundnir við helgarnar sem eru umsetnar.
 Það var fyrst í dag sem þreskt var á þriðju jörðinni og nú mun væntanlega vænkast  hagur þeirra sem eru í bið með að ná sér í villibráð í kistuna.


Það getur verið napurt að bíða eftir bráðinni kaldan haustmorgun en það fylgir veiðiskapnum.

  Stundum er allskonar prútt í gangi og menn bjóða margsskonar verðmæti í stað veiðileyfis. Sjómennirnir fiskmeti ýmiskonar, iðnaðarmennirnir vinnu við e.h. o. svo. frv.

 Reyndar er hópurinn sem enn er á gömlu kunningjakjörunum nokkuð fyrirferðamikill en kannski eru nú mestu verðmætin í því.

 Morgunflugið á fullu og blóðið fer að renna hraðar hjá veiðimönnunum.

 Staðreyndin er  samt sú að afkoman í byggræktinni er þannig, að halda þarf vel utanum hlutina ef allt á að ganga upp. Þar á veiðin og nýtingin á hálminum eftir að skipta mun meira máli en í dag og laga afkomuna umtalsvert.


 Það er samt ljóst að veiðimennskan er alltaf lotterí og ekki alltaf jólin.emoticon 





 

Flettingar í dag: 217
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403431
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:11:22
clockhere