12.08.2009 22:36

Feigðarför Reynistaðabræðra 1780

 Árið 1760 barst fjárkláði til landsins með enskum hrútum sem fluttir voru að fjárræktarbúinu að Elliðavatni. Honum var að lokum útrýmt með niðurskurði og var skorið niður um 60 % sauðfjár í landinu og voru einungis eftir um 40.000 fjár að því loknu.

 Snemma hausts árið 1780 sendi Halldór Bjarnason staðarhaldari Reynistaðaklausturs, tvo menn suður Kjöl til fjárkaupa í Vestur - Skaftafellssýslu og víðar, þá Bjarna son sinn sem var um tvítugt,  og ráðsmanninn Jón Austmann. Síðar um haustið sendir hann svo son sinn Einar, sem aðeins var 11 ára og landseta sinn Sigurð til að reka með norður.
 
  Fór Einar litli þetta sárnauðugur og taldi sig ekki myndi eiga afturkvæmt. Gaf hann frá sér eigur sínar áður en suður var farið, svo sannfærður var hann um þetta. Talið er að faðir hans hafi sótt það fast að senda hann í þessa erfiðu ferð í þeirri trú, að vinir hans syðra myndu gefa barninu kind og kind vegna þess hve ungur hann var.

  Syðra er síðan bætt við einum rekstrarmanni til viðbótar og voru þeir því fimm saman sem lögðu á Kjöl í lok október 1780.

 Voru þeir með um 180 fjár og 16 hross, þar af 5 undir farangri.

 Sunnanmönnum þótti það mikil feigðarför að leggja á hálendið svona síðla hausts með fjárrekstur en engu tauti var við þá félaga komið.

 Nokkrum dögum eftir að lagt var uppfrá Tungufelli gerði mikla úrkomu í byggð sem síðan breyttist í snjókomu og ljóst að hið versta veður var til fjalla. Norðanlands gerði blindbyl sem stóð dögum saman með miklu frosti  og hvassviðri.

 Horft suður Kjalhraun frá Beinahól, Kjalfell til hægri. Þarna hefur verið napurlegra þegar reksturinn stöðvaðist með fénað og menn blauta eftir rigningarslyddu fyrst og síðan  blindbyl.

 Það er síðan ferðamaður á leið að norðan sem kemur að tjaldi þeirra Reynistaðamanna snemma sumars . Var þá ófögur aðkoman fé og hross dauð í kös við hólinn og 4 lík  í tjaldi þar við.



  Þegar síðan var gerður út leiðangur að flytja líkin til byggða voru lík bræðranna horfin úr tjaldinu og vöknuðu strax grunsemdir um að líkin hefðu verið rænd ásamt ýmsum verðmætum sem áttu að vera í föggum þeirra. Urðu af því deilur og málaferli en aldrei kom hið sanna í ljós.


 Þegar horft er á landslagið kringum Beinahól verður hverjum þeim sem kynnst hafa vetrarveðrum yfir ákveðinni hæðarlínu ljóst, að þarna hefur ekki verið gott að dvelja lengi við þær aðstæður sem leiðangursmönnum hafa verið búnar. Ávalur hóllinn og næsta nágrenni ekki veitt mikið skjól, menn og búnaður eflaust blautur í upphafi og hagleysan algjör.

 Lík bræðranna fundust síðan um 66 árum seinna í litlum skúta nokkuð frá tjaldstæðinu. Höfðu þau verið hulin grjóti og hellum.

 Lík Jóns Austmanns fannst aldrei. Var talið fullvíst að hann hafi freistað þess að ríða norðuraf til að láta vita hvernig komið væri en látið lífið með einhverjum hætti á leiðinni.

 Reiðhesturinn hans fannst í síki við ána Þegjandi nokkuð norðan Hveravalla. Höfðu verið skorin af klárnum  reiðtygin og hann síðan skorinn á háls áður en hann var yfirgefinn.

  Hendi sem fannst í Blöndugili var eignuð Jóni en á henni var vettlingur með fangamarki hans.

Sagnir eru um að hundur Jóns hafi komið til bæja efst í Blöndudal um veturinn illa til reika.

 Grá hryssa fannst lifandi um vorið nokkru sunnar, var hún með kliftöskur undir kvið og voru gjarðirnar komnar að beini í hryggnum.

 Heitir þar síðan Gránunes.

 Miklar sögur hafa orðið til um þessa atburði og svo mikið er víst að í Reynistaðaætt er nafnið Bjarni ekki notað. Enginn karlmaður af ættinni má síðan klæðast grænu né ríða bleikum hesti.

 Sé brugðið útaf þessu eru viðkomandi bráðfeigir.

Flettingar í dag: 389
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424126
Samtals gestir: 38674
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 16:47:07
clockhere