15.01.2009 20:58

Dalirnir og dótið.



  Hvar er allt dótið spurði félagi minn, hvernig fer bóndinn að þessu?

 Við vorum á leið vestur Dali og bóndabærinn sem við vorum að bruna framhjá var fádæma snyrtilegur, allt málað og ekkert að sjá utandyra sem ekki átti að vera þar.

  Það hlýtur að vera einhversstaðar bakatil sagði ég hughreystandi, því þrátt fyrir að félaginn sé mikill snyrtipinni er hann jafnframt dótafíkill. Bakatil hjá honum er því dálítið búsældarlegt og mörg gersemin geymd.
 Já það hlýtur að vera sagði hann , en mér fannst samt örla á vantrúarhreim í röddinni.
 Þar sem hann er haldinn töluverðri fullkomnunaráráttu kæmi mér ekki á óvart að einhverju af gersemunum hans yrði hætt, næst þegar hann tekur til hendinni.

 Stuttu seinna keyrðum við framhjá öllu eðlilegra bóndabýli. Þar var heyskap að vísu ekki lokið og talsverður rúllufjöldi dreifður um túnin. Þar verður gróðurþekjan eitthvað götótt í sumar.

 Þetta var í hlýindakaflanum og Heydalurinn var mjúkur undir dekk. Félaginn hafði orð á því að trúlega yrði tæpt um olíuna en aftan ´í pikkanum var stór flatvagn, svo Dodsinn eyddi ekki eins litlu og vanalega. Það var því rennt við á Bíldhóli til að jarma út olíulögg. Þar vorum við upplýstir um að 37 km. væru í Búðardal og þar sem aksturtölvan taldi olíuna duga 45 km. var ákveðið að láta slag standa. Bílstjórinn var síðan orðinn svo strekktur í restina að  að hann þorði varla að koma við olíugjöfina sem aftur hafði slæm áhrif á ferðahraðann. Þetta slapp þó til.

 Ferðinni var heitið vestur í Saurbæ til að kíkja á dót til flutnings á lausu fóðri.
Þrátt fyrir nokkrar væntingar gekk það dæmi ekki upp og málið því enn óleyst.

  En það munar ekkert um eitt vandamálið enn til að leysa.emoticon 





 
Flettingar í dag: 444
Gestir í dag: 148
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424181
Samtals gestir: 38713
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 21:44:28
clockhere