13.01.2009 22:48

Hross í hrakningum.


 Það er orðið ljóst að hrossin í Eyjarhrepp hinum forna lifa forvitnilegu og fjölbreytilegu lífi um áramót og jólaslit.
      
   Það var á miðvikudag sem hrossahópur kom í Hömluholt. Þegar farið var að skoða málið kom í ljós að hrossin voru frá Kolviðarnesi og kom hópurinn af fjörunum, Þetta var hinsvegar minnihluti hrossanna þar og fundust hin hvergi.
 Á fimmtudaginn sáust þau loksins og voru þá í Stórahraunseyjum. Þessar eyjar eru framaf Stórahraunsnesinu og voru hrossin í ytri eyjunni, enda hin ófær uppgöngu fyrir hross.



                                          Ferðaslóðir hrossanna.
Til vinstri á myndinni er Kolviðarnesbærinn með Kolviðarnesvatnið nær okkur.  Utar sést Stórahraunsnesið teygja sig til vesturs.  Milli þess og Kolviðarness rennur Haffjarðará á fjörunni.Efst til hægri á myndinni er Suðurey og Stórahraunseyjarnar á móti henni.

 Djúpir álar eru milli eyjanna og lands og ljóst að hrossin hafa verið á hrokasundi þegar þau náðu landi í eyjunni.
  Erfitt er að ímynda sér hvernig ferðasagan hefur verið hjá hrossunum á þessa þrettándanótt.
Þó er talið að þau hafi lagt út frá Stórahraunsnesinu og lent í ós Haffjarðarár utarlega á fjörunum. Hópurinn sem kom í Hömluholt hefur komist vestur yfir ósinn og endað í Suðurey, en hin náð landi í Stórahraunseyjunni.

  Allt eru þetta getgátur og t.d. ekki vitað hvernig stóð á fjöru meðan á þessu ferðalagi gekk.

Það voru félagar í björgunarsveitinni Elliða sem fóru á bát, ásamt eigendum hrossanna og komu þeim í land. Þau voru fljót upp Stórahraunsnesið , yfir Haffjarðarána á fjörunni og heim í rúlluna sína, klakasíluð eftir að synda í land.

Það er svo á tæru, að þessi hross eru ekki bráðfeig. emoticon




Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424191
Samtals gestir: 38717
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 22:08:48
clockhere