29.11.2008 09:08

Hérar og Hart í bak.

 




Gærdagurinn sem byrjaði frekar illa og endaði ágætlega, var týpiskur þvælingsdagur sem ég hefði haft gaman af fyrir margt löngu , en umber núna með kristiIegri þolinmæði.

 Strax og frúin hafði lokið kennslu var lagt af stað í bæinn með stoppi í Borgó. Eftir að hafa skilað henni af mér til föðurhúsanna, (samt ekki endanlega) var brunað á Selfoss. Þar átti að hefjast fundur kl. 3 og þar sem nú var  orðið  ljóst  að bóndinn væri að falla á tíma, voru náttúrulega öll hraðatakmörk nýtt til hins ýtrasta. Eins og alltaf þegar sú staða er uppi, lendur maður f aftanvið gamla konu sem hefur að sjálfsögðu sína hentisemi í umferðinni. Þegar sú gamla lendir síðan aftan við enn eldri konu er gott að gengnir rebbar hafa þjálfað undirritaðan vel í þolinmæðinni.

  Eftir að hafa kvatt gömlu konurnar, sem eru fyrir löngu búnar að átta sig á því að nokkrar mín. á leiðinni R.vík- Selfoss skipta ekki nokkru máli í lífshlaupinu, var ég svo heppinn að lenda aftan við "héra" sem  ég hélt í hæfilegri fjarlægð fyrir framan mig að Hveragerði. Hérar eru ökumenn sem aka á þeim hraða sem hentar mér og eru tilbúnir að taka áhættuna fyrir mig  gagnvart vökulu auga löggæslumanna. Alltaf þegar  ég fer norður yfir heiðar eru slíkir ökuþórar vinsælir þegar ekið er um húnaþing en það ágæta hérað reynir alltaf mjög á akstursþolinmæðina einhverra hluta vegna.

 Þó að ég mætti svo í seinna fallinu gat ég sagt eins og kunninginn sem lætur gjarnan bíða eftir sér, hvort sem verið er að leggja á, eða funda." Það gerist ekkert, fyrr en ég kem."

  Það var svo ekki nóg með að fundurinn yrði mun betri en reiknað var með , heldur lauk honum á skikkanlegum tíma svo það var ekið héralaust í bæinn. Laxinn sem tengdamamma bauð uppá í kvöldmatinn hafði greinilega verið valinn af mikilli natni og lögð alúð við matseldina.
Þar sem  laxfiskur er ekki ofarlega á vinsældarlista minnar heittelskuðu, öfugt við mig styrkir þetta vonir mínar um að tengdamamma muni að lokum fyrirgefa mér það, að hafa komið í veg fyrir að eldri dóttirin kæmi með  almennilegan tengdason inn í ættina.

 Eftir að hafa séð Hart í bak í þjóðleikhúsinu var mennskælingurinn sóttur og síðan brunað í sveitina. Allir ábyrgðarfullir feður skilja þá ánægjutilfinningu að hafa dótturina í öryggi sveitarinnar sem oftast, á þessum viðsjárverðu tímum, þó fumlaust og ábyrgt uppeldi hafi skilað sér fullkomlega.

 Þetta þýðir samt að ég verð að þola tvöfalt kvennaofríki um helgina.emoticon 
 
Flettingar í dag: 204
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 412934
Samtals gestir: 37049
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 16:16:00
clockhere