03.07.2008 12:38

Gönguferðin á Lónsöræfum

Það skal fúslega viðurkennt að eftir því sem nær dró göngu, jukust áhyggjur mínar af þessu uppátæki okkar Sifjar. Ég hafði sterklega á tilfinningunni að gangan yrði mér allt of erfið, ég í lítilli þjálfun og svona lofthrædd. Undirbúningurinn hafði helst verið sá að ganga nokkur skipti á Dalsmynnisfellið, einu sinni með Höllu Sif upp í hlíðar Hafursfells, (henni fannst ég bæði hæggeng og skíthrædd í skriðum) og svo auðvitað var ég að smala af Eyrunum upp í fjall. Ekki bætti úr skák að mér tókst að snúa mig á hné í efltingarleik við rolluskjátur í nýræktinni tveimur dögum fyrir göngu. Ég huggaði mig við að geta þá bara sleppt úr degi og legið inn í skála ef ég gæti ekki meir. Á miðvikudag var brunað suður með viðkomu á Skaganum þar sem var fundur í fulltrúaráði Fjölbrautaskólans. Við Sif hittumst svo aðeins um kvöldið og reyndum að skipuleggja matarinnkaup.
Fimmtudagurinn rann upp, nú varð ekki aftur snúið og foreldrarnir kvöddu mig með sömu orðum og Svanur: "Farðu þér nú ekki að voða". Vottur af vantrausti eða hvað? Byrjað að koma við í Lyfjabúð, plástrar, teygjubindi (hnéð), sólvörn og þess háttar. Síðan í Ríkið, koníakspeli (afar mikilvægt að kvöldi dags að fá sér 1-2 tappa) og svo var stefnan tekin á Bónus á Selfossi. Við vorum ekki mjög fagmannlegar við innkaupin, en markmiðið var að kaupa alls ekki of mikið því við vissum að allan okkar farangur yrðum við að bera niður (og upp) Illakamb og bara nafnið var ógnvænlegt. Samt vildum við alls ekki verða svangar og það er nauðsynlegt að borða vel þegar verið er að ganga. Við vorum sammála um ágæti súkkulaðis og 5 Síríuspakkar fóru niður, einn á dag. Það kom í ljós að 3 hefðu nægt. Nóg af þurrkuðum ávöxtum, bollasúpur og Svissmiss pakkar, harðfiskur, flatkökur og rúgbrauð, kæfa og annað álegg. Súkkulaðirúsínur, hnetur, orkustangir og núðlur. (Okkur finnst reyndar báðum núðlur vondar, en þær eru léttar.) Núðlurnar urðu svo eftir í Múlaskála og annað það af nestinu sem geymist. Það kom svo í ljós að við vorum með allt of mikið af öllu. Síðan varstefnan tekin á Stafafell og ekið sem leið lá. Lentum í þvílíkri úrhellisrigningu í Rangárvallasýslunni að það runnu lækir eftir veginum og rúðuþurrkur höfðu ekki undan. Sem betur fer stytti upp og komið besta veður þegar komið var framhjá Vík í Mýrdal. Við vorum komnar að Stafafelli um áttaleytið, þar áttum við pantað svefnpokapláss. Kvöldið fór í að raða farangri í stóru bakpokana og ákveða hvað ætti að fara í dagpokann. Þarna hittum við líka nokkra væntanlega göngufélaga. Kirkjugarðurinn var skoðaður, afar vel hirtur. Sif lyfti upp krossviðarplötu í einu horninu og þá blasti við nýtekin gröf. Okkur brá aðeins en svo  kom í ljós að jarðarför var daginn eftir og því urðum við að færa bílana aðeins frá. Farið var snemma í háttinn til að vera nú klár í slaginn næsta morgun.
Flettingar í dag: 333
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424070
Samtals gestir: 38626
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 13:45:53
clockhere