24.05.2008 22:02

Tvö eða þrjú??


            Þessi gekk líka með þremur í fyrra. Samtals tæp 130 kg á fæti um haustið.        
      



   Hún er síkrafsandi, mér líst ekki á þetta sagði húsfreyjan með áhyggjutón í röddinni.
Hún stóð yfir nýborinni tvílembu þegar ég dróst út til að taka morgunvaktinia um 1/2 fjögurleitið frekar framlágur. Það getur samt ekki verið að hún komi með það þriðja, þessi eru svo stór, bætti hún við með vonarhreim í röddinni. Viltu ná þessari, ég þarf að skoða hana sagði hún svo og benti á eina með lamsóttina. Það ber rétt að en er stórt ,sagði hún svo að lokinni skoðun. Gæti verið einlembingur bætti hún við. Þessar bera svo trúlega í nótt og þessi er ekki ólíkleg sagði hún svo að lokum, spámannleg á svipinn og benti á viðkomandi áður en hún yfirgaf svæðið. Og þessi skoðaða átti bara eitt lamb. Það gekk á ýmsu áður en hún samþykkti að taka við þrílembing í sumarfóstur.  Ekki dugði að setja lömbin í sameiginlegt bað sem virkar þó stundum. Það var ekki fyrr en næsta ær bar og náðist í alvöru legvatn sem samningar tókust. "Þessar" báru svo um nóttina og sú " líklega" í morgunsárið meðan verið var að afgreiða kýrnar.

   Yngri bóndinn var svo í því að koma áburðinum á túnin en hinn markaði og kom út slatta af fé ásamt spákonunni. Hann fór síðan með tamningarolluhólfinu og gerði það alveg lúshelt,  því 4 gemlingar og tvær geldær verða þar í sumar ( Stundum bænheyrður).  Kannski verður Snilld litla orðin nothæf í haust?? Tvíburunum (Atla og Iðunni) sem áttu afmæli þ.21. var síðan haldin veisla samhliða einhverju sjónvarpsefni sem ég kann ekki að nefna en Halla Sif hafði bakað og eldað af miklum myndarskap daglangt. Þegar Júródæmið stóð sem hæst, laumaðist ég hinsvegar með ölið mitt í pottinn því nú átti sá gamli loksins að fá að sofa eitthvað af viti. Svo verður reynt að taka út hestakostinn á morgun því nú styttist í Sleppitúrinn. Það er svo boðið upp á fjörureið á fjögurfjörunni á morgun.

  Það bendir sem sé ýmislegt til þess að sumarið sé að bresta á.
Flettingar í dag: 139
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 745
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 420884
Samtals gestir: 38385
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 11:36:39
clockhere