03.03.2008 22:37

Neyðarástandi aflétt.

 Það var orðið slæmt ástandið á heimilinu.Engin Borgarnesferð í síðustu viku og hugsanlega engin í hinni heldur og ástandið í ísskápnum skelfilegt. Það var ekki nóg með að allur góði óholli maturinn væri búinn heldur þessi vondi holli líka.Og bóndinn orðinn eins og kviðdreginn mjóhundur. Þó ég líti svo á að það sé húsmóðurinnar að sjá um þessa hluti nú í seinni tíð, þá þorði ég ekki hafa orð á því vegna yfirstandandi Vsk.uppgjörs sem getur nú tekið á taugarnar. Ekki var því um annað að ræða en drífa sig  Borgó í eigin persónu ef ég ætlaði að halda lífi. Þegar leggja átti af stað kom útkall frá hestamiðstöðinni um að nú þyrfti að moka snjó sem aldrei fyrr. Aumkunarverðar mótbárur voru ekki teknar til greina því von var á þessum með trippi og hinum að sækja trippi og allt í voða. Þegar planið var að verða klárt birtist Þverárbóndinn með blásarann og snyrti afleggjarann. Það stóðst svo á endum að Einar var búinn að hella uppá kaffið þegar við nenntum ekki að moka meira. Hann verður svo að átta sig á því að bjóða eitthvað krassandi(minnst 40 %) með kaffinu næst, ef þetta á að ganga svona og vináttan á að haldast. Svo var brunað í Borgarnes og farið beint í Hyrnuna að seðja sárasta hungrið. Þar var ég svo heppinn að hitta Gösla sem var að renna niður síðustu kjötbollunni.Þá vissi ég að það yrði ekki nóg með að ég færi saddur og sæll út, heldur myndi Gösli nota tímann meðan ég væri að borða til að ljúga einhverju að mér. Hann hefur gott lag á að gera það þannig að ég trúi honum alltaf þó ég viti betur. Þegar hann svo sagði mér það einhverntímann í samtalinu að hann nyti engra sérkjara hjá N 1 þrátt fyrir veruleg viðskipti trúði ég honum ekki. Hélt að allir væru á tilboðum og sérkjörum í olíuviðskiptum. Ég tók hann því í tíma í viðskiptafræði og benti sérstaklega á að samningamaður okkar Eyhreppinga lyki öllum samningum með því að segja lægstbjóðanda að ef hann vildi fá viðskiptin yrði hann að ydda blýantinn betur.
 Þar sem móðir mín varð 85 ára í dag var sett læri í ofninn  og eftir það og kökuna sem ég fjárfesti í (þrátt fyrir bágan efnahag bænda um þessar mundir) stefnir nokkuð ákveðið í að eðlilegt holdafar náist á ný og þetta hörmungartímabil gleymist.
Flettingar í dag: 284
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1053
Gestir í gær: 39
Samtals flettingar: 423733
Samtals gestir: 38565
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 23:39:23
clockhere