27.01.2008 21:41

Snjór og kynbótadómar

 Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að snjói alltaf í logni hér á nesinu.
Ég viðurkenni fúslega að þegar snjóar eru þeir fleiri dagarnir sem snjórinn er á góðri siglingu á leið sinni hér um en þegar hann kemur lóðrétt.
 Það eru hér tvær staðbundar snjóaáttir,norðaustan sem heldur snjónum yfirleitt á það góðri siglingu að hann stoppar ekkert við nema í  lautum eða skjóli. Hinsvegar er það suðvestanáttin en þá er oftast éljagangur í kortunum á þessum árstíma.Þetta eru oft drjúg él hvað snjómagn snertir og laga oft snjóbúskapinn verulega á svæðinu, eða þannig. Nú er blessuð vestanáttin ríkjandi hér og snjóbúskapurinn ákaflega góður hvað magn varðar.

  Já Söðulsholtsbændur ákváðu að blása til námskeiðs í kynbótadómum hrossa,réðu kennara og´"láku" síðan tilvonandi námskeiðshaldi til vina og vandamanna. Annaðhvort var lekinn of mikill eða vina og vandamannahópurinn of stór, því eftir að hafa bætt við öðrum kennara var stoppað við 22 nemendur. Að gefnu tilefni skal tekið fram að lekinn átti sér einungis stað innan ákveðins radíuss hér vestanlands en byrjaði ekki í fjarlægum landshlutum. Það sem gerði það að verkum að ég fékkst til að mæta, var að kennarnir, Eyþór Einarsson  og Þorvaldur Kristjánsson voru þeir sömu og dæmdu í tryppakeppninni á Mið-Fossum og hafa því að mínu mati gríðarlega gott vit á hrossum. Það verður síðan að viðurkennast að þetta var frábært námskeið og ég sem hef náttúrulega ekki þurft annað en renna augunum yfir hrossið til að meta  hvort það væri fallegt eða ljótt fékk þarna alveg nýja sýn á hlutina. Og þó að ég væri náttúrulega ekki sammála því að hross sem mér þótti nú ekkert sérstök væru að halast í fyrstu verðlaun gætti ég þess að hafa ekki orð á því. Ekki dugar að deila við dómarana. Svo nú liggur fyrir að reka inn leynivopnin okkar í ræktuninni og leggja á þau" hlutlaust " mat. Spurning hvort það verði góður dagur?
Flettingar í dag: 509
Gestir í dag: 157
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 424986
Samtals gestir: 38886
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 20:13:59
clockhere