25.01.2008 22:39

Landnámskýrin .annar kafli.

 Í fyrsta sinn sem ég kom í fjós erlendis var það í Finnlandi.(Af öllum löndum). Þetta var gamalt básafjós með flór og öllum pakkanum og miklum spæni á gólfum og stéttum í tilefni gestakomunnar. Þarna stóðu um 20 - 30 kýr í röð. Þær voru ívið stærri en þær íslensku og hópurinn samsvaraði sér vel en það voru júgrin á þeim sem vöktu sérstaka athygli. Júgrin og spenarnir voru öll eins og steypt í sama mótinu og ég velti því lengi fyrir mér hvenær eitthvað þessu líkt sæist á skerinu. (En þetta var nú áður en ég sá ljósið.) Síðan hef ég komið í þó nokkur fjós með ýmsum kúakynjum og veit að svona er þetta í útlandinu. En svo sá ég ljósið. Þegar ég kom í 250 kúa fjósið á dögunum og var að virða fyrir mér mjaltabásinn hugsaði ég til þess með hryllingi hvernig það væri fyrir vesalings mjaltamennina að þurfa að þvo og setja á nákvæmlega eins 200 og eitthvað júgur tvisvar á dag. það hlýtur að vera skelfilega tilbreytingalaust. Mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar kom í hugann að hjá þessum 40 og eitthvað mjólkandi kúm í Dalsmynni eru engin 2 eins.  Og þegar það kom fram að þessir dönsku spenar  sem hvorki leka eða eru fastmjólka eru að skila í mjöltun 3- 5 litrum/mín. hugsaði ég með mér þvílíkt stress þetta hlyti að vera að vinna í þessari gryfju. Og mér varð hugsað til kvígunnar sem bar hjá okkur fyrir jólin þetta var stór og falleg kvíga með gott júgur og góða spena og mjólkar vel. Ég fylltist bljúgri þakklætiskennd þegar mér var hugsað til pásunnar sem kemur í mjaltabásnum þegar kvígan er mjólkuð en það tekur 0.8 mín að ná hverjum líter úr henni. Ég veit reyndar að þeir sem eru að stjórna kynbótastarfinu og velja nautkálfana á stöðina berjast hæls og hnakka á milli við að breyta þessum dásamlegu eiginleikum íslensku kýrinnar en sem betur fer gengur það bæði seint og illa.

 Gangið þið svo á guðs vegum um helgina.
Flettingar í dag: 2641
Gestir í dag: 281
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430620
Samtals gestir: 39796
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 23:34:43
clockhere