22.01.2008 22:14

Skák og mát.

  Þegar Fischer og Spassky öttu hér kappi um árið var ég nokkur áhugamaður um skák. Ég hafði grúskað aðeins í þessu lesið einhverja bók um málið og lært einhverjar byrjanir sem dugðu mér sæmilega ef skákspjaldið var tekið upp. Einhverra hluta vegna var Fischer minn maður í einvíginu. Núna kann ég reyndar ekki skýringu á því , sérstaklega vegna þess, að á þessum árum var ég haldinn pólitískum skoðunum sem settu Bandaríkin ekki ofarlega á vinsældarlistann hjá mér. Nú hef ég reyndar mjög litlar pólitískar skoðanir en jafn lítið álit á Bandaríkjunum en það er önnur saga.
 Trúlega hef ég gert Fischer að mínum manni vegna þess að hann hafði minni stuðning að baki sér og var ekki auðveldur viðfangs í daglegri umgengni og ég hef löngum verið hallur undir órólegu deildina. Ég fylgdist nokkuð vel með einvíginu og átti það til að setja upp áhugaverðar skákir og spá í þær. Það var þá sem ég fékk það stundum á tilfinninguna að minn maður eins og lumaði á einhverju upp í erminni sem dugði honum til sigurs eftir tvísýna barátta.

 Það var mjög ánægjulegt þegar Fischer hafði hrakist hingað á klakann að upplifa
það að hann var látinn í friði fyrir fjölmiðlunum sem  yfirleitt eira engu. Þessvegna hrökk ég við þegar " vinir " snillingsins birtust í fjölmiðlum að honum gengnum og stefndu greinilega á mikið fjölmiðlafár enda vanir menn á ferðinni. Þegar það lak út af fjögurra manna fundi að opinber útför og þjóðargrafreitur væri markmiðið var þetta orðið borðleggjandi. Hvað nánustu aðstandendur hugsuðu  virtist litlu skipta.
 
En Fischer hafði lumað á leikfléttu uppí erminni og séð til þess að hún yrði framkvæmd. Með öðrum orðum " skák og mát."
 
Flettingar í dag: 373
Gestir í dag: 94
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424110
Samtals gestir: 38659
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 15:51:39
clockhere