19.01.2008 10:06

Fundur + !! vinnuferð !!


Byggræktendur í Eyjarhrepp hinum forna hittust í gærkvöld og fóru yfir ræktunarmálin.
 Uppskerutölur haustins vori daprar annað árið í röð og vóg þar þyngst foktjón í roki sem gekk yfir um 23 sept.
 Þriggja tonna markmiðið af ha. náðist ekki þetta haustið. Líklega væri skynsamlegt að miða uppskerutölurnar við vigt á rennblautu byggi eins og sumir gera svo góða skapið haldist en allar þyngdartölur  eru miðaðar við bygg með 87 % þurrefni. Þrátt fyrir þessar niðurstöður og hækkandi áburðarverð var enginn bilbugur á mönnum og er stefnt að ræktun á um 100 hö. næsta vor enda er kjarnfóðurverð á hraðri og öruggri siglingu uppávið.

 Svo snúið sé aftur að Danmerkurferðinni þá var byrjað á því eftir lendingu að taka í notkun 2 bílaleigubíla og skipta hópnum sem taldi 9 manns.
 Þrír yfirgáfu okkur í "bændageiranum" en við hinir byrjuðum á að renna við í vélasölufyrirtæki í um 15 mín. fjarlægð frá flugvellinum.
 Eftir að hafa skoðað fyrirtækið og þegið veitingar var brunað af stað í næsta mál sem var heimsókn til akuryrkjubónda.Var nú tekið á því á hraðbrautunum því við vorum klukkutíma á eftir áætlun. Þrátt fyrir einbeittan brotavilja bílstjórans og töluvert hættuástand sem skapaðist á akbrautum Danaveldis gekk illa að ná upp tímatapinu  og urðu menn að lokum sammála um að við værum á áætlun miðað við lendingu flugvélarinnar og róuðumst við nokkuð við það.
 Það fyrsta sem stakk í augun við komuna til bóndans var að ekki sást nokkurt tæki eða eitthvað dót sem tilheyrði starfseminni  utandyra . Þessi bóndi ræktaði um 600 ha. af ökrum og var sjálfum sér nógur um öll tæki. Vélarnar voru greinilega teknar í gegn fyrir geymsluna t.d. allur beislis og tengibúnaður pússaður og lakkaður.
  Hann átti um 250 ha. af ræktunarlandinu sjálfur, hitt  leigði hann í nágrenninu og voru um 20 km á milli þeirra akra sem fjærst lágu hvor frá öðrum. Hitt landið var hann með á leigu og var að greiða um 50 - 70.000 ísl. kr/ha. Hann var að fá um 30 - 40.000 kr. í styrk á ha. Þarna er ræktunarlandið með öðrum orðum mjög verðmætt . Hæsta leiguverð hér sem ég hef heyrt um er 5.000 kr./ha fyrir tún en oftast er það ekkert,bara að túninu sé haldið í rækt. Það er nokkuð fast verð á akurlendinu í sölu eða um 2.500.000 ísl.kr./ha. Meðal þess sem fór í gegn hjá honum var 5.000 tonn af hálmi, hann framleiddi ekki allt það magn heldur keypti og endurseldi að hluta, og uppskeran í bygginu var 5 - 6 tonn af ha.
 Hann kaupir áburðinn að haustinu, til að fá betra verð og tekur hann í lausu. Frá því hann gekk frá kaupum í haust hefur áburðurinn hækkað um 30 - 40 % og er enn að hækka svo við eigum von á góðu þegar áburðarverðin birtast okkur trúlega í næstu viku. Og ég get alveg fullvissað ykkur um það að traktorarnir og tækin þarna voru af alvörustærðum. Eftir að hafa farið rækilega yfir ræktunarmálin var enn lagt út á hraðbrautirnar með upphaflegu aksturslagi því það átti að taka eina umferð í keilunni fyrir kvöldverðinn sem okkur var boðið í af SAC verksmiðjunni.
 Við náðum hinsvegar einungis í að sjá félagana sem skilið höfðu við okkur um morguninn ljúka sinni umferð með því að bursta Danina (Danirnir kunna sig).
 Eftir ánægjulegan kvöldverð og einn lítinn öl var síðan tekinn loka rússíbaninn á hraðbrautinn á hótelið þar sem við dvöldum  í ferðinni, en það var í 60 km fjarlægð frá Agromec sýningunni. Við komum okkur síðan fyrir á hótelinu, lögðum undir okkur "testofuna" og svo söng karlakórinn" örfá " lög fyrir svefninn.

 

Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 863
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 422177
Samtals gestir: 38482
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 09:12:14
clockhere