Færslur: 2014 Febrúar

26.02.2014 21:17

Að fara fram úr sér , - það er oftast skandall.


  Hundurinn rak hópinn frá okkur með nokkuð snyrtilegum hætti, fór aðeins fram með hópnum sinn hvoru megin en aldrei fram fyrir miðju.

 Hann stoppaði svo og leit spyrjandi á húsbóndann eftir smáspöl.

 Getur þú sent hann framfyrir spurði ég unga manninn við hliðina á mér.

 Hann hristi höfuðið. Nei ég var ekkert að senda hann frá mér , hafði ekkert of góða stjórn á honum til að byrja með og vildi ekki skemma neitt svaraði sá ungi. En hann sótti í það fyrst bætti hann við.

 Ég vissi ekki hvort mér líkaði verr takmarkaður áhugi hundsins á rekstrinum  eða algjört áhugaleysi hans á því að fara fyrir hópinn.

 Sá ungi hafði hringt í mig daginn áður, sagðist eiga leið um og bað mig að horfa á tveggja ára gamlan hund fyrir sig.

 Aðspurður kvaðst hann nú eiginlega ekkert vera farinn að temja hann en svona tekið hann með í fjárragi haustsins.

 Var hann alltaf svona rólegur spurði ég ?

 Nei, það voru nú  læti í honum til að byrja með en svo róaðist hann nú, sagði ungmennið og var nú nokkuð ánægður með sig.

  Ég horfði  á hundinn þar sem hann leit ýmist á kindurnar eða eigandann, og íhugaði hvernig ég ætti að höndla málið.

 Svo sagði ég unga manninum það að fyrir um 3 vikum hefði ég fengið hvolp í tamningu.

 Algjöran skæruliða sem hefði umsvifalaust ráðist á hópinn tekið eina kindina fyrir og hangið í henni. Það hefði tekin 3 daga að venja hann af því í rólegheitum og nú gengi vel með hann. Hvarflaði ekki að honum að ráðast á kind við vinnuna.

 Ég vissi ekki einu sinni hvernig ég ætti að fara að því að kenna honum það, ef ég vildi að hann tæki upp fyrri hætti.

 Það vottaði fyrir skilningsleysi í augum unga mannsins sem vonlegt var.

 Þá sagði ég honum að þegar  hann hefði lagt af stað með ótaminn hundinn í vinnu með sér, hefði tamningin hafist hjá honum.

 Nú væri hann búinn að kenna hundinum ágætlega að reka með sér.

En rétt eins og ég hefði vanið hvolpinn  af skæruliðatöktunum , þannig hefði hann vanið hundinn algjörlega af því að fara fyrir hópinn og stoppa hann af.

Án þess að gera það yrði hundurinn lítils virði sem fjárhundur.

 Trúlega hefði svo þessi dólvinna í rekstrinum  slökkt á 
einhverju af áhuga hundsins til að vinna við kindur.

 Og hvernig reddar maður þessu, spurði sá ungi og var greinilega ekki að kaupa alvarleika málsins.

 Ég leit á hundinn , svo á unga manninn og síðan aftur á hundinn.

 Síðan sagði ég fullur  ábyrgðar og trúnaðar í málrómnum.

Þú verður að fá þér velættaðan hvolp og temja hann áður en þú ferð með hann í vinnu.

 Leit svo aftur á hundinn og bætti við.

Og svo áttu þarna fínan rekstrarhund sem bónus.

22.02.2014 09:00

Alltaf sama sagan. Vitlaust gefið eða bara væl ?

 Nú er kominn ásættanlegur birtutími og líður hratt á veturinn .


  Það fylgir því alltaf viss spenningur þegar  kíkt er í sauðburðarpakkann og frjósemi ársins liggur nokkurnveginn fyrir.

                                                   Bubbi mættur í fósturtalninguna.


 Þetta er annað árið sem við látum telja og þó allt  hafi nú gengið án´ talningar áður  verður ekki aftur snúið með þessa nýjung frekar en aðrar.


  Eins og fyrri daginn  kom í ljós að sá sem sér um að raða lömbunum í ærnar er ekki að vanda sig og í stað þess að hafa allt fullorðið með tveim lömbum eins og þær eru ræktaðar til, eru of margar með einu eða þrem lömbum . Ég veit svei mér ekki hvort mér finnst verra.


 Nú höfðu þrílemburnar vinninginn og voru 19 en 17 einlemdar.

Gemlingarnir  voru svo alltof frjósamir eins og venjulega eða helmingur með tveimur.

 Sem sagt meðaltalið helv. gott, en þessir bændur eru bara aldrei ánægðir. emoticon


 Helsti munurinn frá fyrra ári var að einungis voru tvær kindur tómar/geldar. 1 fullorðin og 1 gemsi.

6 geldar árið áður var fullríflegt en þær nýttust vel í tamningarnar og ég hélt því hiklaust fram að þær væru tekjudrýgstu ær búsins.


  Þessi skortur á geldum ám skapa engin vandamál í vetur, en það þarf að velta sumrinu aðeins fyrir sér.


 Alltaf gott og hollt að þurfa að hugsa aðeins.


 Um miðjan jan. er byrjað að gefa gemlingunum bygg og gefinn sami skammtur framyfir burð.  Tvilemburnar sem ekki tekst að venja undan eru vandmeðfarnar og skemmd júgur geta auðveldlega orðið til  ef innistaðan verður of löng eftir burð, sama hvað dekrið tekst vel.


 Það er að gerast á hverju ári og er einn af þessum slæmu hlutum í búskapnum sem er óásættanlegur.


   Ærnar hafa það alltaf jafngott á taðinu með gjafagrindina sína stöðugt til taks, misfulla af heyi.

Misfóðrunin sem sumir tala um finnst ekki hér, þó gjafaplássið sé ofnýtt miðað við regluverkið.emoticon 

 Og þar sem kjarnfóður stendur þeim ekki til boða fyrr en á sauðburði er ekki einu sinni haft fyrir því að koma upp byggrennum hjá þeim.

 

 Sem sagt  allt í góðum gír þessa dagana nema rokdagarnir eru eins og tvílemdu gemsarnir, óþarflega margir.


18.02.2014 08:05

Púkarnir ráðagóðu.


 Veist þú ekki allt um hunda Svanur minn sagði gamli maðurinn í símanum.

 Ég tók að sjálfsögðu ákaflega vel í það.

Sagðist vita heilmikið um hunda.  Það væri nú samt miklu meira sem ég vissi ekki um þá , því miður.

 Gamli maðurinn, kunningi minn lét þetta ekki slá sig útaf laginu. 

Hann fór að segja mér að hann, eða þau hjónin ættu " íslenskan "  hund.

 Ég vissi nú reyndar allt um það, því þó það væri langt á milli okkar þekkti ég vel til og reyndar hafði ég heyrt slæmar sögur af þessum hundi. Sígeltandi næstu nágrönnum til mikilla leiðinda og svo flæktist hann milli bæja í tíma og ótíma.

 Hann fór síðan að lýsa hundinum fyrir mér og segja mér ýmsar sögur um ágæti hans.

 Ég hlustaði þolinmóður þó ég gætti þess vel að ýta nú ekkert undir frásagnagleðina svo þetta tæki nú einhverntíma enda.

 Þannig að það gengur bara vel með hundinn spurði ég þegar ég komst að milli sagna hjá honum.

 Það dró snögglega niður í gamla manninum við spurninguna og það varð smá þögn í símanum.

 Svo sagði hann mér að það væri nú reyndar eitt smávandamál með hundinn.

 Hann hefði átt það til leggjast í smáflakk milli bæja en þau hefðu nú vonast til að það myndi eldast af honum.

Það hefði ekki gert það . Síður en svo.

 Nú væri orðin svo mikil óánægja með þetta í sveitinni að þetta gengi ekki lengur.

Þau væru  eiginlega búin að ákveða það að láta svæfa hundinn. 

Svo hefði þeim dottið í hug að tala við mig  og vita hvort ekki væri einhver leið til að venja hann af þessu.

Það var semsagt erindið  Svanur minn, sagði gamli maðurinn og var orðinn átakanlega dapur í málrómnum.

 Nú varð löng þögn í símanum.

Púkinn á hægri öxlinni  hvíslaði í eyrað á mér að nú skyldi ég stappa stálinu í gamla manninn og málið væri dautt  og allir ánægðir í sveitinni.

Púkinn á þeirri vinstri sagði mér að nú yrði ég að duga gömlu hjónunum og þeim "íslenska "
svo hann gæti lifað lengur, jafnvel þó nágrannarnir yrðu að umbera gjammið í honum einhver ár í viðbót.

 Það var vor í lofti, sólin skein og dagurinn hafði verið góður þar til síminn truflaði mig.

Þegar þögnin var orðin dálítið þrúgandi í símanum tók ég af skarið og sagði gamla manninum að ég kynni tvö ráð til að venja hundinn algjörlega af þessu.

Annað væri alveg 100 % öruggt. Að láta svæfa hundinn.

Hitt væri svona 97.5 % öruggt.   Að láta gelda hundinn.

 Og ég ítrekaði það til að firra mig ábyrgð að seinni aðferðin væri ekki alveg örugg.

 Ég skynjaði alveg gegnum símann hversu gamla manninu létti.

Við látum gelda hundinn sagði hann strax og spurði mig ekkert frekar út í vafatriði við þá framkvæmd. 

Við prófum þetta.

Og nú mátti hann ekkert vera að því að tala við mig lengur.

Hefur væntanlega viljað flýta sér að segja konunni sinni frá þessari vonartýru í myrkrinu.

Ári seinna var ég á ferð í þessari fjarlægu sveit og droppaði inn í kaffi hjá nágrönnum gömlu hjónanna.

Þar var tekið vel á móti mér að venju, drifinn í eldhúsið og gefið kaffi.

Síðan kom skammarræðan. Loksins þegar hafði tekist að tala gömlu hjónin á að drepa þetta helv. hundfífl hafði ég eyðilagt allt saman.


Ég reyndi að verja mig en tókst það illa sem von var en spurði þó hvort hundurinn hefði ekki hætt öllu flakki.

 Jú reyndar en það var ekki nóg.

Og húsbóndinn opnaði eldhúsgluggann og benti mér yfir til nágrannans.

Þar stóð gulur hundur í hlaðinu, í svona 400 m. fjarlægð og gelti upp í austangoluna.


Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere