Færslur: 2011 Október

13.10.2011 22:05

Árhringur sauðkindarinnar á síðustu metrunum.

Nú fer að sjást fyrir endann á rolluárinu og styttist ótrúlega í að kindur verði teknar á hús og rútínan hefjist á nýjan leik.

 Réttarhöldum og leitum lokið, þó enn eigi eftir að fara á fjöll og ná kindum sem slæðast hér inná vesturhluta Eyjarhreppsins gamla.

  Það er ekki svo langt síðan að hér í sveitarfélaginu  (Eyjarhr.) voru nokkur þús. fjár á fóðrum en nú eru vetrarfóðraðar kindur  vel innan við 400 samtals, á 3 bæjum..

 Ágangurinn inn á svæðið er mikill og héðan frá Dalsmynni var flutt um 500 fjár misjafnlega langt að komið.

 Héðan var svo sent " allt " sláturfé rúmlega 200 st.á þriðjudaginn, en það endar í Hvíta Húsinu á Hvammstanga.

 Meðalvigtin kom mér skemmtilega á óvart en hún var rúmu kg. hærri en í fyrra . Gerðin lækkaði hinsvegar aðeins og fitan hækkaði um heilt stig.  Fylgdi sem sagt böggull skammrifi.  19,27 kg. - gerð 9.84. - fita 8.05.  Þetta er eins og gerist löngum í ræktuninni, alltaf eitthvað eftir til að stefna að.

 Nú er hrútasýningin framundan um helgina, bólusetning líflamba fljótlega í næstu viku o.sv.frv.

Og ekki dugar að loka svona rolluspjalli nema láta þess getið að heimtur eru með skásta móti, nánast kollheimtur á fullorðnu og  örfá lömb sem vantar.

 Og það rignir og rignir sem aldrei fyrr.

 

10.10.2011 22:43

Tveggja hunda rollur.

Hluti fjalllendisins sem ég sé um leitir á er dálítið stórskorinn og öðruhvoru verða til kindur sem kunna að nýta sér það til að framlengja fjalladvölina.

  Þar sem aðeins eru notaðir vel hundaðir úrvalssmalar, er þetta þó sjaldan vandamál.
Þær kindur sem þó komast á þetta  geta orðið erfiðar viðfangs og þær svæsnustu virðast gæta þess að fara aldrei langt frá giljum eða klettum sem þær geta forðað sér í.


   Hundarnir voru löngu farnir að halda sig vel fyrir aftan mig eins og þeir gera alltaf  þegar eitthvað fjör er framundan.

 Gamli maðurinn lagði á Hafursfellið í morgun eftir einni í erfiðari kantinum. Þrátt fyrir að berja Hrafnagjána augum oft á dag hafði ég aldrei stytt mér leið  í Geldingadalinn, upp hana fyrr.



 Hér eru Dáð og Tinni búin að ná tökum á viðfangsefninu og nú snerist málið ekki um að reka það eitthvað , heldur að stoppa mæðginin af og stýra þeim rétta leið niður úr dalnum.

 

 Það var ekki fyrr en í neðst klettabeltinu sem þau sluppu í kletta en þeir voru samt haldlitlir í vörninni.


 Allt komið í upphafsreitinn og nú var bara að fara nógu rólega það sem eftir, var svo hrússi kæmist á leiðarenda.



 Hér er svo smá slökunarstund meðan umboðsmanns eigandans var beðið til taka við ullarpöddunum brattsæknu.

05.10.2011 07:44

Byggið. Endar það í tómu tjóni??

 Eins og þolgóðir lesendur mínir hafa ekki komist hjá að upplifa, var byggið seint til þroska þetta árið.

 Á þessu stigi málsins voru menn hér orðnir nokkuð bjatrtsýnir á ásættanlega uppskeru þetta haustið, þrátt fyrir afleitt árferði.

 Eftir frostnótt snemma i sept. fóru akrarnir samt að fölna og voru að verða tækir í þurrkun um miðjan sept.

 Síðan hefur náttúrulega varla stytt upp.

Nú er ljóst að stór hluti þeirra akra sem eftir standa eru orðnir talsvert tjónaðir og menn orðnir dapureygir af því að horfa á miskunnarlausa langtímaspána með endalausan lægðagang í kortunum.



 Þetta blasti m.a. við okkur í ástandskönnuninni í gær. Júdithin er ekki gerð fyrir margra vikna haustveðrun á sunnanverðu Snæfellsnesi.



 Einar og Atli spekingslegir á svipinn að veita hvor öðrum áfallahjálp í skelfingunum.



 Þessi akur hjá Einari stóð samt sæmileg og var tekinn milli skúra í gær. Nú þýðir ekkert að velta fyrir sér smámunum eins og olíuverðinu í þurrkuninni.



 Akrarnir eru talsvert misjafnir og sumstaður sjást svona legur. Þetta næðist samt mestallt upp ef hægt væri að senda lægðirnar yfir á  bretana í nokkra daga.



 Það eru Skegglan og Lómurinn sem standa nokkuð vel enn en það er á svona haustum sem þau síga framúr innflutta sex raða bygginu í uppskerumagni.

 Já nokkurra daga þurrkur með hæfilegum hraða á logninu myndi bjarga heilmiklu. Það er þó trúlega öruggast að vera ekki að velta fyrir sér hvernig verður að komast um akrana, ef skyldi gefa til þreskingar.
Flettingar í dag: 1504
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806637
Samtals gestir: 65282
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:52:20
clockhere