Færslur: 2011 Maí

30.05.2011 18:24

Drullukuldi og dásamlegheit.


Þrátt fyrir kuldatíð og seinagang í grassprettu og tilheyrandi rólegheit í vorkomunni, er næstum allt í fínum gír.

 Brýnustu vorverkunum lokið þó í seinna lagi sé, aðeins eftir að bera á nokkur rollutún, ásamt túnum hestamiðstöðvarinnar og rollurnar eru nú að yfirgefa húsvistina hver á fætur annarri.
 Í þessum skrifuðu orðum er ein ær óborin.

 Og maður er farinn að ná sínum  6 tíma svefni á ný.

Það er þó nokkuð ljóst að slátturinn verður á seinni skipunum hér miðað við undanfarin gósensumur og kýrnar fara trúlega ekki út 10 júní eins og vanalega.

Gott mál.



Það styttist í grenjavinnsluna og minkaveiðin hjá yngri bóndanum  mun bresta á næstu dagana.

 Girðingarviðhaldið bíður að vísu eftir okkur sem er óvanalega seint en ekki verður við öllu séð.



 Það liggja síðan fyrir breytingar á húsakosti í sumar sem munu koma í veg fyrir að bændurnir láti sér leiðast í einhverju aðgerðarleysi.


 Síðast en ekki síst er síðan nóg að gera framundan í allskonar hundastússi og aldrei þessu vant úr nógu geldfé að moða í tamningarnar.

Já það er engin þörf að kvarta þegar ....... ..... .....

26.05.2011 16:07

Korka Tinnadóttir.

 Þó ég hafi mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig útlit ég vil hafa á hundunum mínum þá er ég enginn bókstafstrúarmaður í þeim efnum því notagildið er öllu ofar.

 Nýjasta blómið í hundaflórunni hjá mér hún Korka Tinnadóttir frá Miðhrauni hefur þá sérstöðu m.a.
að aldrei hef ég átt hreinræktaðan border collie með jafn fá hvít hár í feldinum.



 Þetta er hvolpur sem ég bind vonir við að geti orðið að skemmtilegum/góðum fjárhundi og strax eru komnir í ljós kostir sem ég met mikils í samskiptum við hundana mína.



 Hér er smákelistund með pabbanum en aldrei er of mikið af þeim.



 Þegar kastast í kekki getur Korka svo orðið býsna stór að eigin áliti.



 Það er ekki alveg búið að ákveða í hvaða farveg uppeldið á Korku lendir, en það verður þó gulltryggt að hún mun hljóta  gott uppeldi og fulla tamningu í fyllingu tímans.

  Hún á að verða fyrsti prófsteinninn minn á Tinna sem ræktunardýr, þó hún eigi  líka gott að í móðurætt undan Tátu frá Brautartungu. Táta er undan  Killiebrae Jim sem er innfluttur.


                                                Táta frá Brautartungu.
 Að Tinna standa ættir sem ég þekki vel til og sjaldgæft að lenda á eintaki eins og honum  þar sem kostirnir úr forfeðrunum safnast jafn vel saman.


 

22.05.2011 08:11

Rok og ræktunarstefnur.

Þó norðanblásturinn mætti gjarnan ganga hraðar niður og hitinn stíga örar er þetta þó allt á réttri leið.

Féð sem komið var út ber sig alveg ótrúlega vel og þegar ég var orðinn viti mínu fjær af áhyggjum yfir því ( gerðist reglulega) dugði mér algjörlega að taka rúnt niðurfyrir og sjá rollurnar arfaslakar liggjandi í náttúrulegunm skjólum sem er nóg af , gamlir árbakkar, ruðningar o. sv. frv.
 
Það var bara búið að setja út elstu lömbin og " sæmilega " ullað fé sem hefur gert ástandið þolanlegt.


 Heyrúllan sem ég fór með niðureftir fyrir löngu er hinsvegar nær ósnert, sem er gömul reynsla og ný að þegar lambféð er komið þarna niðurfyrir lítur það ekki við heyi.
Ég hefði hinsvegar ekki boðið í ástandið ef það hefði fylgt úrkoma með í þessum hretpakka.

 Nú lítur út fyrir að tíðarfarið  fari skánandi og mikið verði sett út þegar kemur fram í vikuna enda orðið brýnt að koma elstu lömbunum út.


 Sauðburðurinn er að ganga mjög vel og frjósemin sem virtist ætla að verða í slakara lagi til að byrja með venti sínu kvæði í kross, þrílembumet síðustu ára eru fokin ( vont mál)  og tvílembuhlutfall gemlinganna er yfir 60 % sem er afleitt mál. 

 Í nótt var öðru lambinu undan júgurbólgurollu t.d.skellt undir tvílembu til að redda málum í bili en það er ljóst að það verða nokkrar með þrem lömbum í sumar og sömuleiðis munu nokkrir gemsar ganga með tveim lömbum.
 Sú ræktunarstefna að hafa alla gemsa einlemda og allar rollur með tveim er ekki að ganga upp hér þó stundum líti það þannig út á pappírunum.
Flettingar í dag: 452
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 430
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 670491
Samtals gestir: 58992
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:22:29
clockhere