Færslur: 2011 Febrúar

02.02.2011 10:30

Framleiðslumet, liðbandsslit og gamlir húsgangar.

Eins og allir vita er landslagið hér á Nesinu ákaflega fjölbreytilegt og mannlífið ekki síður.

 Og veðurfar Nessins lætur engum leiðast enda fjölbreytileiki þess endalaus.

Þrátt fyrir það má segja að fyrsti bylur vetrarins hafi nú ekki sýnt sig fyrr en í nótt/morgun, og þó hann hafi nú kannski ekki verið eins og þeir öflugustu í gamla daga dugði hann þó til að gamla settið í Dalsmynni bjó sig extra vel í fjósið.   Síðan var skólinn blásinn af þegar harðskeyttum skólabílstjórum gekk illa að ná nemendum í skólabílana í morgunsárið.

 Fjósið gengur alveg firnavel þessa dagana. Eftir að loksins var farið að gefa réttu fóðurblönduna er útlit fyrir að fóðurplanið hennar Lenu hjá Búvest muni svínvirka, en það gengur út á að nota eins og mögulegt er af bygginu sem kjarnfóður.

Allavega 4 kýr eru að mjólka yfir 40 l. á dag og doði og súrdoði eru ekkert að angra okkur/þær.
 7 -9 - 13.

 Framleiðslumetin  per sólarhring (komið yfir 900 l.) falla nær daglega þessa dagana.

Reyndar held ég því fram að þetta sé eingöngu vegna þess að yngri bóndinn liggur ofdekraður með slitin liðbönd eftir síðasta körfubolta, en þar sem mér er algjörlega haldið frá tölvustýrðri kjarnfóðurgjöfinni, er sú skoðun ekki keypt af samrekstraraðilum búsins..
 Þessi liðbandsslit þýða það einnig (ásamt metaregninu í fjósinu) að nú verður gamli bóndinn að hafa " ívið " meira fyrir lífsbaráttunni en endranær og eins gott að hann er ekki alveg kominn í kör.

 Það var t.d. tekinn mikil törn niður í byggskemmu í gær að valsa og sekkja bygg svo nú er birgðastaðan hér heima í lagi og vigtaðir sekkir bíða svo niður í skemmu eftir að þeirra tími kemur.,

 Nú er svo beðið eftir að veðrið detti niður um miðjan daginn svo hægt sé með góðu móti að gefa rollunum í flatgryfjunni án þess að allt fyllist af snjó.

 Fjölbreytileiki veðurfarsins þessa þorradaga hefur slæm áhrif á hundatamningarnar því ekki eru í boði nein góðviðri í veðurpakkanum.

 Gömlu mönnunum í gamla daga hefðu svo ekki litist á óstöðugleikann í þorraveðrinu og myndu eflaust hafa  raulað fyrir munni sér gamla húsganginn .

Þurr skyldi Þorri,
þeysin Góa.
votur einmánuður .
Þá mun vel vora.

 Síðan hefðu þeir spáð slæmu vori þunglyndislegir til auganna.

Ég raulaði húsganginn allavega tvisvar í morgun.emoticon
Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418128
Samtals gestir: 37979
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 19:04:28
clockhere