Færslur: 2009 Október

06.10.2009 22:58

Byggþreskingu loksins lokið.

 Loksins lauk byggþreskingunni þetta haustið í Dalsmynni.

 Það var metuppskera í fyrra og nú var það met slegið. Haldi þetta svona áfram endar þetta trúlega með ágætis afkomu í byggræktinni.

 Þegar Einar verður búinn að gefa mér upp uppskerumagnið mitt í kílóum munu birtast hér nánari afkomutölur í byggræktinni þetta árið.

 Nú er aðeins eftir að þreskja nokkra ha. í sveitinni sem vonandi klárast á morgun því nú er rok í kortunum.

 Þetta er fyrsta haustið  í byggræktarsögu Eyjarhrepps sem nánast ekkert tjón verður í ræktuninni vegna veðurs eða annars á haustmánuðum.



 Það var ótrúlegt hversu vel gekk að komast um akrana eftir votviðri haustsins en þarna þurfti Sampóinn samt smáaðstoð í fyrsta hring. Þessi akur var síðan saltaður og verður reynt að svamla um hann á morgun.


 Svona var útsýnið hjá þreskjaranum á sínum eigin akri sem var að gefa góða uppskeru eftir að hafa verið með rýgresi sem skiptirækt  s.l. sumar eftir 4 ár í byggi.



 Og það er nákvæmlega svona sem fyrsta flokks bygg lítur út, áður en það rennur í gegnum þurrkarann og lendir  síðan í Dalsmynniskúnum, grísunum á Brúarlandi eða í snilldarkanínunum hennar Ransý.
 Það er þó ekki útilokað að einn og einn sekkur lendi hjá einhverjum rolluköllum eða kúabónda sem er svo heppinn að hitta á mig daginn sem ég fer réttu megin fram úr rúminu.




 Já, það er góður dagur þegar síðasti  byggvagninn er tæmdur í móttökuna.emoticon 
 

03.10.2009 20:43

Lambi bjargað úr ótrúlegu ævintýri.


 Ég hef of oft séð kindur hrapa í klettum og það er alltaf jafn skelfilegt.

 En það var fyrst í dag sem ég sá kind í ógöngum, hverfa ofan í sylluna sem hún var nýbúin að lenda niður á eftir stutt hrun.



 Þetta byrjaði sakleysislega við smölun í Geldingadalnum sem liggur nokkuð hátt í Hafursfellinu.

Hér sést efsti hópurinn á gil eða gjáarbarminu og Snilld sést óljóst vera að komast hægramegin við þær til að ná þeim frá brúninni. Það tókst en..



 Þarna var síðasti séns fyrir þessar fjallafálur eða þverhausa að komast í kletta þetta haustið.


 Grá gimbur í hópnum hafði hrapað niður á næstu syllu og lent beint fyrir neðan þessa gráu, þar horfði ég á hana hverfa afturábak ofan í sylluna.

 Hafa skal það sem klauf er næst hefðu þær eflaust hugsað ef þær gætu það( rollur hugsa ekki)
en allavega voru aðstæður notaðar til hins ýtrasta.

 Í troðningunum þarna lenti  eitt lambið niður á næstu syllu og allt einu sé ég hvar það hverfur afturábak hægt og rólega niður í sylluna. Þaðan sem ég stóð sáust engin verksummerki ofanfrá.


Búið að fjarlægja rollubrjálæðingana og Atli mættur til  að vita hvað orðið hefði af lambinu. Þetta er trúlega fyrsta alvöru aðgerðin hjá björgunarsveitarformanninum.

 

 Þarna hafði stórt bjarg sprungið frá klettaþilinu og lambið lent þar ofaní en það er víst svona sem ævintýrin gerast.



 Ekki nóg með það, heldur hafði 20- 30 kg steinn fylgt á eftir og skorðast rækilega framan við lambið og læsti það þannig niður í sprungunni.

 Það var heilmikill barningur að ná því upp, og á endanum var komið bandi um framfæturnar og það dregið upp framhjá þessari náttúrulegu læsingu. Þetta var svona eins og nokkuð erfið fæðingarhjálp á sauðburði.


 Kannski gerir Grána sér vonir um að komast aftur í Hafursfellið og er að segja Snilld að þetta verði enn erfiðara fyrir hana næst.

 Hér er svo Grána litla frá Lækjarbug komin niður á gróna jörð úr hremmingunum ,hornbrotin á öðru horni og trúlega eitthvað meira tjónuð.

 Stundum býr maður til skemmtileg ævintýri að lenda í, en svona uppákomur er eitthvað sem best er að vera laus við.

 En allt er gott............emoticon

Fleiri myndir hér. Björgunaraðgerð. 
Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 406
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 417532
Samtals gestir: 37883
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 00:55:29
clockhere