Færslur: 2008 Ágúst

10.08.2008 00:29

Sú mórauða og skógræktarféð.


  Við Vaskur vorum að dúlla við einhverjar austurbakkarollur í skógræktinni hjá einum sveitunganum þegar bráðatófuútkall barst. Það var yngri bóndinn, aðaltófuskyttan sem horfði vanmáttugur og byssulaus á eina mórauða á röltinu um níuleytið í morgun á holtunum við  .........  Ég sem er vanur að setja allar slíkar upplýsingar á harða diskinn og láta það duga,  brást hart við innkallaði Vask og keyrði á óupplýstum hraða heim ,þar sem skipt var á Vask og rifflinum. Þegar á hólminn var komið var aðalskyttan send heim eftir vopnum og sjónauka en undirritaður rölti af stað út á holt og mýrar að reyna að komast í nánari tengsl við lágfótu.
  Þessi tangarsókn gekk upp áður en lauk en það er óvanalegt í þessum bransa.


  Fyrir áhugamenn um skotvopn er þarna ,Sako 243 með þungu hlaupi. Sjónaukinn er 
     Zeiss   2.5- 10x 50  með upplýsanlegum krossi.


 Þarna laut í gras mórauð læða, trúlega gelddýr og gamli maðurinnn sem er löngu hættur að labba langtímum saman á rebbaveiðum, þó það hafi stundum gefið vel, varð afmóður um leið og dýrið féll.

  Austurbakkarollurnar sluppu þó ekki.

En þær sluppu þó lifandi í þetta sinn.

08.08.2008 18:58

Bongóbliða sem aldrei fyrr.




   Það er ekki lengur hægt að segja að veðurblíðan í dag hafi verið einstök og kýrnar voru venju fremur slakar á heimleiðinni. úttroðnar því nú er farið að dekra við þær í beitinni.




  Ef vel er gáð sést félagi Vaskur dóla eftir kúnum í lágu gírunum og aðeins fjær er móðir hans hún Skessa sem finnst gaman að koma kúnum síðasta spölinn inn , þó hún sé komin á eftirlaun og geri lítið annað en fara í fjósið á málum.

   Þetta tíðarfar er farið að verða dálítið" ýkt" .

07.08.2008 08:55

Heyskapartíðin!!


   Heiðskírt veður og hiti yfir meðallagi er það sem við á Nesinu þekkjum vel eftir sumarið.
       Hér er verið að vinna í heyjum fyrir útiganginn. Þar eru trúlega fáar FE. í rúllunni.


 Ég hef enga tölu á þurrviðrisdögum sumarsins, en hitt veit ég að aldrei áður hef ég upplifað sumar, þar sem bændurnir  gátu stýrt slættinum  eftir þroskastigi grasanna og samantekt heyjanna eftir þurrefnisstiginu í þessum endalausu þurrkum. Í ár  var gott að búa við mýrartúnin sem spruttu ágætlega þrátt fyrir úrkomuleysið. Nú, þegar loksins slær á þurrkinn, er eftir að hreinsa af beitartúnunum, slá rýgresi (seinni slátt) og lítilsháttar há er samt gott að vita að sá heyskapur skiptir litlu, enda trúlega þegar slegin met í Dalsmynni í heyskaparmagni og gæðum.

  Og bygguppskeran lítur mjög vel út, en þar er nú kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið.
Flettingar í dag: 192
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 1899
Gestir í gær: 71
Samtals flettingar: 814037
Samtals gestir: 65532
Tölur uppfærðar: 6.4.2025 02:38:01
clockhere