Færslur: 2008 Maí
05.05.2008 00:02
Rigningin er góð.
Það rigndi vel seinnipartinn í dag. Til að byrja með var þetta kalsarigning en svo hlýnaði og þetta var orðin ekta vorrigning áður en lauk,. Hér hefur ekki rignt í háa herrans tíð og allt orðið skrælþurrt. Nýræktirnar urðu hreinlega hvanngrænar fyrir augunum á manni og allt breyttist.. Meira að segja fuglarnir virtust breyta um tóntegund en ég hætti mér nú ekki útí að lýsa því nánar. Það var rokhvasst fyrripart dags svo ekki var hægt að sanda eins og til stóð. Í stað þess var farið í að dreifa taði og og taðhálmi úr haugum. Dreift var á tún sem plægð verð upp og sáð í rýgresi í sumar. Eftir kvöldmat var komið logn og þá var dreift nokkrum dreifurum af skeljasandi til að sjá hvernig Samsoninn virkaði. Það verður að segjast að þessi græja þeirra stórvina minna á Austurbakkanum er hrein snilld í skeljasandinn og taðið .Afköstin eru mögnuð og dreifingin á sandinum góð. Ef slá ætti túnin hefði ég viljað sjá fínni vinnslu á skítnum en þetta var gott í plæginguna. Atli náði að klára plæginguna í Dölunum svo nú hefst byggsáningin á morgun. Ekkert atvinnuleysi hrjáir því sveitavarginn þessa vordaga og stutt í stressið ef eitthvað fer úrskeiðis.

Skrifað af svanur
03.05.2008 23:34
Vorið er komið og!!
Þeir sem hafa alið aldur sinn hér á nesinu síðustu 50 árin eða svo, plús eitthvað, eru komnir með innbyggt mikið langlundargeð gagnvart veðurfari. Það verður samt að játast að þanþol undirritaðs var orðið ansi strekkt yfir norðaustanáttinni síðustu, guð má vita hvað marga daga. Nú er að bregða til betri tíðar og eins og ég spáði einhversstaðar er allt komið á fulla ferð. Þar sem allt síðastliðið haust var svona hálfgerð vætutíð eða þannig, náðist ekki að plægja akrana og eykur það álagið nú. Undanfarnir dagar hafa farið í að plægja og kalka/sanda á fullu og enn er verið að. Bændurnir hér í Eyjarhreppnum sáluga eru að sá í um hundrað ha. af byggi og síðan eru sumir með grænfóður til beitar eða sláttar til viðbótar. Hver er með sína akra þó uppskeran lendi svo í samkrulli um það er lýkur, nema félagið okkar, Yrkjar ehf. er með akra inn í Dölum. Þar verður plægt á morgun og síðan byrjað að sá þar, trúlega á mánudag .. Dalsmynni og Söðulsholt eru síðan með eitthvað óljóst samkrull í vinnunni og vélunum sem gengur fínt enda kæruleysið ríkjandi. Atli sem er aðal plægingarmeistarinn sér síðan um sáðvélina sem notuð er á svæðinu og fær að komast að því fullkeyptu í törninni sem framundan er.
Sauðburðurinn er svo að bresta á, því samstilltu sæðisærnar eru að byrja. Nýheimta gimbrin úr Stóra Langadalnum var síðan að bera og þó lambið væri stórt "Slapp það til" eins og Skagfirðingarnir segja, með guðs hjálp og konunnar minnar náttúrulega sem dugar nú kannski betur í fæðingahjálpinni en ?.
Sauðburðurinn er svo að bresta á, því samstilltu sæðisærnar eru að byrja. Nýheimta gimbrin úr Stóra Langadalnum var síðan að bera og þó lambið væri stórt "Slapp það til" eins og Skagfirðingarnir segja, með guðs hjálp og konunnar minnar náttúrulega sem dugar nú kannski betur í fæðingahjálpinni en ?.

Skrifað af svanur
02.05.2008 09:53
Fundafíklar og sauðburður.
Á ákveðnu tímaskeiði ævinnar trúði ég því að öruggast væri að ég hefði puttann á öllu mögulegu og ómögulegu sem var í gangi í samfélaginu. Það skrýtna var að að fleiri voru þeirrar skoðunar og ég var því kosinn í flestallar nefndir og ráð sem fyrirfundust í bændasamfélaginu. Það fór þó svo að ég áttaði mig á því að enginn er ómissandi og allra síst ég. Þetta uppgötvaðist nokkuð samhliða minnkandi áhuga á tíðum fundarsetum á oft tilgangslitlum fundum. Eftir á að hyggja var ótrúlegt að ég skyldi uppgötva þessar staðreyndir á undan kjósendunum og hætta því vafstrinu í tíma.
Það fór samt ekki hjá því að ég hefði skoðanir á ýmsum málaflokkum sem stóðu mér nærri og stundum (sjaldan) stóð ég mig að því að reyna að hafa áhrif á ýmsa hluti sem ekki voru í rétta farveginum frá mínu sjónarhorni. En allt fer í hringi og í þessari viku hef ég setið 3 fundi og sá fjórði frestaðist af ókunnum orsökum. Þýðingarmesti fundurinn var lokafundur samninganefndar um rekstur Laugargerðisskóla sem rekinn er af Borgarbyggð og Eyja og Miklaholtshrepp. Samningsdrögin sem samstaða var um í nefndinni og lögð verða fyrir sveitarstjórnirnar, þýða jákvætt og öruggt rekstrarumhverfi fyrir skólann okkar þar til börnin þrjóta á svæðinu. Annar hvor aðilinn getur þó á hverjum tíma óska endurskoðunar ef aðstæður breytast.
Fyrsta lamb vorsins leit svo dagsins ljós í morgun nokkrum dögum fyrir tímann.
Móðirin sem er önnur kindanna á búinu sem glímir við kviðslit kom reyndar með annað sem var andvana fætt. Sauðburðurinn í Dalsmynni er sem sagt á fullu og lítur illa út ef ekki lifir nema helmingurinn af lömbunum(enginn bóndi nema hann berji sér).
Það fór samt ekki hjá því að ég hefði skoðanir á ýmsum málaflokkum sem stóðu mér nærri og stundum (sjaldan) stóð ég mig að því að reyna að hafa áhrif á ýmsa hluti sem ekki voru í rétta farveginum frá mínu sjónarhorni. En allt fer í hringi og í þessari viku hef ég setið 3 fundi og sá fjórði frestaðist af ókunnum orsökum. Þýðingarmesti fundurinn var lokafundur samninganefndar um rekstur Laugargerðisskóla sem rekinn er af Borgarbyggð og Eyja og Miklaholtshrepp. Samningsdrögin sem samstaða var um í nefndinni og lögð verða fyrir sveitarstjórnirnar, þýða jákvætt og öruggt rekstrarumhverfi fyrir skólann okkar þar til börnin þrjóta á svæðinu. Annar hvor aðilinn getur þó á hverjum tíma óska endurskoðunar ef aðstæður breytast.
Fyrsta lamb vorsins leit svo dagsins ljós í morgun nokkrum dögum fyrir tímann.
Móðirin sem er önnur kindanna á búinu sem glímir við kviðslit kom reyndar með annað sem var andvana fætt. Sauðburðurinn í Dalsmynni er sem sagt á fullu og lítur illa út ef ekki lifir nema helmingurinn af lömbunum(enginn bóndi nema hann berji sér).

Skrifað af svanur