22.09.2017 09:55
Fjárrögunardagurinn mikli.
Eftir að búið er að ná fénu saman ( þriggja daga leit) er tekinn dagur í rögunina.

Þar sem notast er við taðfjárhús er enginn afsláttur veittur á þurrviðrisdegi.
Lömbin eru tekin undan . Veturgamalt og sláturfé tekið frá .
Lömbin vigtuð og grófflokkuð fyrir ómskoðun og líflambaval.
Þó fjárbúið sé ekki stórt ( 150 vetrarfóðrað) og húsakosturinn velhannaður fyrir fjárragið þarf útsjónarsemi til að þetta gangi á einni dagstund.
Hópnum er rennt þrisvar í gegnum rögunarganginn. Fyrst eru ásetningsærnar skráðar og teknar úr. Síðan veturgamalt og þær ær sem ekki verða settar á.

Rögunargangurinn er að sjálfsögðu heimasmíðaður og svínvirkar náttúrlega.
Að lokum er svo lömbunum rennt í gegn,vigtuð og þau sem verða ómskoðuð og stiguð merkt. Þau eru fljót að læra og við vigtunina eru þau farin að renna greiðlega gegnum ganginn.

Úr vigtinni fara þau út í réttina og svo bíður hausthólfið eftir þeim.

Já , svo er það líflambavalið í næstu viku og síðan er ein sending í hvíta húsið aðra vikuna í okt.

Já. Þau ánægjulega umskipti fylgdu þessari aðstöðu að árlegir bakverkir steinhættu algjörlega að gera vart við sig.

Samkvæmt skilgreiningu sumra félaga minna í sauðfjárræktinni flokkast þetta víst undir hobbýbúskap en skítt með það

Tókuð þið svo nokkuð eftir því að það var bara ekkert minnst á hunda í þessu bloggi.

Skrifað af svanur