31.08.2017 08:37
Hringurinn um Hafursfellið.
Nú styttist í smalamennskurnar og eins gott að hafa menn, hesta og hunda í nothæfu formi.
Staðan hjá mér er þannig að aðalsmalinn hún Korka er í fæðingarorlofi fram yfir fyrstu leitir.
Dóttirin Bonnie sem er tveggja ára hefur verið tamin töluvert á árinu en er samt ekki til alvöru stórræða þetta haustið.
Sweep sem ég flutti inn á síðasta ári er talsvert taminn en samt ekki slípaður við alvöru fjallahark, svo nú reynir á hann
.

Ég ákvað því að slá a.m.k. 3 flugur í einu höggi, þjálfa mann, hesta og hunda en ekki síst að venja hundana við að fylgja hestum og sýna þeim fjalllendið.
Kenna þeim að berja fé augu án frekari afskipta.
Vegna nálægðar þjóðvegar get ég ekki haft hundana með í hefðbundnum útreiðartúrum.
Já, það var ákveðið að skella sér í hringferð um Hafursfellið.
Ég vil helst hafa hundana 30 - 50 m. fyrir framan mig þegar ég er í hnakk.
Sweep var strax inná því en Bonnie sem ég hafði af aulaskap vanið á að vera vel fyrir aftan þegar ég var að sækja reiðhrosssin eða færa þau milli hólfa hélt sig við það.
Hún var bara látin komast upp með það meðan hún lét hrossin í friði.









Séð suður Núpudalinn.
Fyrsti leggurinn var inn Núpudalinn, ágætis leið með ánni.

Hér sést í hina áttina og Sweep er alveg dolfallinn yfir flottheitunum
.
Frá Núpánni lá leiðin svo norðan við Þórarinsmúlann upp samnefndan dal yfir Núpuskarðið sem er norðurmörk Hafurfellsins.

Fyrir þónokkrum árum þegar ég var " aðeins " yngri voru hér kindagötur upp, niður og út á hlið. Þær eru allar horfnar. En mér líkt og skáldinu norður á Akureyri forðum, líkar ekki illa að " ganga götulausa /græna jörð . "

Núpuskarðið er í um 600 m. hæð og er hækkunin ásættanleg fyrir lítið þjálfaða hesta og gönguvant gamalmenni.

En þegar Stígandi sem kallar ekki allt ömmu sína biður um pásu fær hann hana,- nema í einhverjum algjörum undantekningartilvikum.

Þessi rjúpa féll alveg með ólíkindum vel inni landið þarna efst í Þórarinsdalnum . Felulitirnir höfðu samt ekki dugað fjölskyldunni, því það voru bara 3 ungar eftir hjá henni.

Vestan Skarðsins er hækkunin, ja eða lækkunin öllu meiri niður að Laxánni.
Hér er alveg hægt að staldra við og renna augum vestur Löngufjörur að Snæfellsjökli og til baka með Elliða í fjallahringnum.

Þetta fallega gil sem ég kann ekki nafn á, kemur niður úr Núpuskarðskálinni norðan Hlíðahornsins. (Norðvestasti tindur Hafursfellsins.

Mesta loftið úr hundunum enda nýbúnir í nokkrum hasar við að koma kindum norður úr girðingunni.
Hér suður hlíðina lá skemmtileg gata troðin af fjárhópum gegnum aldirnar. Nú liggur hlíðin öll innan skógræktargirðingar og ekki nokkur leið að greina götuna nema þar sem hún er notuð sem slóð vegrna skógræktar.
Semsagt afturkræf umhverfisáhrif.

Já, það var ekki slæmur dagur þetta

Skrifað af svanur