14.10.2015 21:29
Sauðfjárárhringnum lokað.
Það er alltaf sama spennufallið þegar maður horfir á eftir fjárflutningabílnum með lömbin í Hvíta húsið á Hvammstanga.

Heimturnar hafa verið með allra , allra besta móti. Allt fullorðið skilað sér og vantar ekki nema tvo lömb af fjalli.
Það voru ekki miklar væntingar um að met yrðu slegin í fallþunga eða gæðum þetta árið. að vísu sannfæring um að þetta yrði betra en í fyrra sem var botnár hjá okkur.
Það gekk eftir.
Stefnan var sett á að fallþunginn yrði yfir 18 kg. og gerðin yfir 10 .

Þetta gekk hvorugt eftir.

Meðalvigt var 17.98 . - gerðin 9.8 og fita 6.83 sem telst magurt á Dalsmynnskan mælikvarða

Lífgimbrahópurinn uppfyllti nokkurnveginn þær kröfur sem hér eru gerðar af hógværð og lítillæti.
Nú er Saumur inni í ræktuninni og svo heppilega vildi til að annar ásetningshrúturinn er undan honum.

Spurning hvernig honum vegnar á komandi hrútasýningu á föstudagskvöldið.
Það er samt engin stefna eða markmið í gangi, í því máli.

Þar sem næstu blogg munu verða helguð fjárhundum með ýmsum hætti er ágætt að æfa sig með einu myndskeiði af innrekstri fjár.
Hér er þetta rólegt dól og miklu minna fjör heldur en fyrir þó nokkrum árum þegar blóðið rann hratt og örugglega í mannskapnum og raddböndin fengu góða æfingu.
Já, og þá þurfti svo hellings mannskap til að hægt væri að koma safni í rétt og hús.
Miklu meira fjör í því.
Skrifað af svanur