17.02.2015 21:25
Bæjarferð með blóðugu ívafi.
Það var brugðið sér í bæjarferð í dag enda spáin góð eða þannig ;) . Meðal erinda var að leyfa honum Dreyra Sigurssyni að kíkja í bæinn.
Hann er námsverkefni fyrrverandi verknema sem er á hrossabraut á Hvanneyri.
Á laugardaginn kom í ljós að Dreyri var tjónaður á tönn og erfitt að átta sig á hvað var að eða hvað hefði skeð.
Við læknisskoðun á mánudeginum kom í ljós að ein framtönnin hafði losnað illilega og ekki um annað að ræða en að reyna að spengja hana fasta eða kippa henni úr.
Svo hann var gripinn með í bæinn og settur í hendurnar á Björgvin.





Þarna er búið að setja tönnina á sinn stað og víra hana. Vel sést hvernig tannholdið hefir rifnað þegar tönnin gekk upp og framávið.
Vegna þess hvað langt var um liðið var komin ofholdgun við sárið og lykt af því.
Það var ákveðið að reyna að bjarga tönninni og eftir mikil þrif og nokkurt basl tókst að þrengja tönninni aftur á sinn stað og í annarri tilraun að víra eða spengja hana þannig að doktorinn væri ánægður.
Hér á bara eftir að ganga frá vírendum og fela þá með hóffylliefni svo þeir særi ekki.
Nú er Dreyri kominn í 6 vikna frí og verkneminn mun fá systir hans ári yngri ( á fjórða vetri) til að spreyta sig á í tamningarnáminu.
Ekki er með nokkru móti hægt að átta sig á hvað það var í stíunni sem Dreyra tókst að festa tönnina í .
Skrifað af svanur