26.01.2015 08:14

" Keppnishundarnir " og sexappíllinn.

 Stundum er ég spurður að því hvernig það sé með þessa " keppnishunda" . Hvort þeir séu nokkuð að virka í smalamennskum ? 

Stutta svarið er, að því betri í keppni, því betri í smalinu.

 Langa svarið er að ég sé þeirrar skoðunar, að svo hundi gangi vel í keppni þarf hann að hafa ýmislegt til brunns að bera. 

  Hann verður að vera með mjög gott vinnulag. 

 Gott vinnulag að mínu mati er góð örugg fjarlægð frá kindunum. Það þýðir meðal annars að þegar hann er sendur fyrir eða til að stýra kindunum í ákveðinni braut  fer hann út og vel til hliðar . 

 Heldur sig alltaf 10 - 30 m. frá kindunum hvað sem hann er að gera. Hann þarf að vera hraður en samt yfirvegaður og geta gengið viðstöðulaust að kindum og tekið í þær ef á þarf að halda til að koma þeim af stað. 

  Sleppa um leið og kindin gefur eftir og koma sér aftur í kjörfjarlægðina.


   Ákveðin, hiklaus og ógnandi framkoma dugar oftast til að koma þeim af stað.

  Hlusta vel og hlýða skipunum viðstöðulaust án þess að hafa augun af kindunum.

  Hundurinn og náttúrulega smalinn verða að geta byggt upp traust  við kindurnar. Makki þær rétt verður þetta allt átakalaust. 

 Óþarft er að taka fram að svona traust verður ekki byggt upp í einni keppni eða smalamennsku, við kindur sem hafa lent í hundum sem vinna með öðrum hætti. Kannski talsvert öðrum hætti en hérna er lýst.emoticon  
  
 Ég er svo  alveg til í að taka umræðuna við þann fjárbónda sem er þeirrar skoðunar að eitthvað af ofantöldum kostum góðs keppnishunds væru lítils virði í smalamennsku. emoticon 

  Hund sem vantar eitthvað af þessu lendir ótvírætt í enn frekari vandræðum í keppnisbraut en sá fullkomni.

 Hann lendir  óhjákvæmilega í sömu vandræðunum í fjallinu. 

Kannski liggur hluti vandamálanna með uppgefnar kindur og lömb sem leggjast/týnast og verða eftir í leitum, í hundum sem hafa ekki nokkurn skapaðan hlut að gera í keppnisbraut.

 Það sem ég horfi sérstaklega eftir í dag er þessi mikla útgeislun sem einstaka smaladýri er gefið. 

 Yfirvegað öryggi og hiklaus ákveðni sem flestar /margar kindur virðast lesa hjá hundinum um leið og hann fer að vinna við þær. 

 Þegar ég sé svona dýr í vinnu detta mér oft í hug ljóðlínurnar hans Steins Steinarrs sem urðu að vísu til af allt öðru tilefni.

 " Sumir hafa sexappíl  / sem sumir hafa ekki . "

Flettingar í dag: 4114
Gestir í dag: 234
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 652212
Samtals gestir: 58110
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 22:26:11
clockhere