16.10.2014 08:22
Haustannállinn .
Það verða alltaf viss skil í haustinu þegar flutningabíllinn fer með sláturféð í hvíta húsið.
Slaknar á öllu, þó endalaus verkefnin séu alltaf fyrir hendi.

Eftir að stytti upp leikur veðrið við okkur þó gosmistrið slái aðeins á kætina. Bygguppskeran náði neðstu lægðum annað árið í röð og nú má passa sig á að fara alls ekki að reikna út " hagnað " og meðaltöl .

Ekkert svona í boði þetta árið.
Það gæti alveg eyðilagt góðu áhrifin frá betra tíðarfari. Meira að segja hálmuppskeran varð að einhverju pínulitlu í stórrigningunum. Meðalvigtin á eðallömbunum var kg. minni en í fyrra en þá var hún kg. minni en árið þar áður. Spurning hvernig það endar
.

Heimturnar eru orðnar ásættanlegar . Vantar nokkur stök lömb og eina veturgamla með lambi. Sú mætti gjarnan skila sér .
Ég á samt inni eftirleitaskrepp hér á fjallgarðinum því búið er að staðsetja 3 dilkær sem komið hafa inná svæðið eftir smalamennskur og eftirleitir.

Staðsetningin á þeim er auðvitað þannig að það munu fara 3 dagar í að ná þeim.
Og náttúrulega allar ókunnugar.
.

Á hverju hausti velti ég því fyrir mér að ef ég gæti sent eigendunum reikning fyrir mig, fjórhjólið og hundana við að ná þessum eftirlegukindum, myndu þær hætta að vera til á örfáum árum.
Langt síðan ég ræktaði út hjá mér kindur sem skila sér ekki í fyrstu smalamennskum.

Nú liggur svo fyrir að draga undan smala og ferðahestunum ásamt tamningafolunum og þeir verða síðan trúlega í fríi fram á næsta vor .
Og eins og vanalega mun ég trúlega lifa af skammdegið sem nú hellist yfir, í vissu þess að það sé ekki svo langt í að daginn taki að lengja á ný.
Þó ég verði nú trúlega lítill inni í mér eins og stundum gerist í skammdeginu.
En þá er bara að vona að vorið og sumarið sem væntanlega mun hellast yfir mann áður en lýkur muni verða aldeilis frábært.



Já nú er bara að sökkva sér niður í pælingar um ótroðnar slóðir, gamalla hestaleiða næstu vikurnar.

Skrifað af svanur