25.04.2014 20:49
Alltaf til gleðigjafar endalaust.
Árstíðirnar leggjast misþungt á okkur bændaskarfana .
Nú er annasamasti hluti ársins brostinn á fyrir nokkru og það verður allt á útopnu út maímánuð.
Botnlaus blíðan síðustu dagana gerir þetta enn skemmtilegra og það að fá hvern logndaginn á fætur öðrum í mykjudreifinguna er eins og að vinna í lottóinu.
Þessi 18 t. mykjudreifari barst líka upp í hendurrnar á okkur eins og hver annar lottóvinningur og það var alveg sérstaklega ánægjulegt að eiga viðskipti við Skeiðamenn. Fá 10,5 fyrir sanngirni og orðheldni.
Kom mér reyndar ekki á óvart því konan sem hefur komið mér gegnum lífsins ólgusjó síðustu, tæpu 40 árin er einmitt fædd og uppalin á Skeiðunum.
Já, þannig að mykjudreifingu lýkur vonandi á morgun.
Vorboðinn í áburðarsekkjunum er samt ekki ókeypis og nú fer ég að verða búinn að kanna notkun næstum allra áburðartegunda sem í boði eru. Enginn hefur þó slegið út þjónustuna sem þessi flutningsaðili bauð, BB og synir Stykkishólmi. Ég gerði ekkert nema vísa honum á staðinn fyrir áburðinn og hann sá um losunina sjálfur.
Það er óskaplega langt síðan hér hafa verið hross á húsi en nú er loksins búið að gera stíurnar klárar í fjárhúsinu og komnir inn 4 snillingar . Tveir margreyndir og tveir verðandi, verða teknir til kostanna af verknemanum og yngri dótturinni.
Óþarft að taka fram að ég mun ekki verma hnakkinn fyrr en að loknum sauðburði.
Næst á dagskrá er að koma upp burðarstíum , klára girðingarvinnu sem lenti inní vetrinum og taka á móti tæplega 300 lömbum.
Yngri bóndinn mun hinsvegar tvíhenda sér í akuryrkjuna um leið og sígur úr ökrunum.
Í þeim málaflokki er þó hægt að hugga sig við það, að útkoman úr þeirri búgreininni getur ekki orðið lakari en í fyrra.
Alltaf hægt að finna eitthvað sem kætir mann.