26.02.2014 21:17
Að fara fram úr sér , - það er oftast skandall.
Hundurinn rak hópinn frá okkur með nokkuð snyrtilegum hætti, fór aðeins fram með hópnum sinn hvoru megin en aldrei fram fyrir miðju.
Hann stoppaði svo og leit spyrjandi á húsbóndann eftir smáspöl.
Getur þú sent hann framfyrir spurði ég unga manninn við hliðina á mér.
Hann hristi höfuðið. Nei ég var ekkert að senda hann frá mér , hafði ekkert of góða stjórn á honum til að byrja með og vildi ekki skemma neitt svaraði sá ungi. En hann sótti í það fyrst bætti hann við.
Ég vissi ekki hvort mér líkaði verr takmarkaður áhugi hundsins á rekstrinum eða algjört áhugaleysi hans á því að fara fyrir hópinn.
Sá ungi hafði hringt í mig daginn áður, sagðist eiga leið um og bað mig að horfa á tveggja ára gamlan hund fyrir sig.
Aðspurður kvaðst hann nú eiginlega ekkert vera farinn að temja hann en svona tekið hann með í fjárragi haustsins.
Var hann alltaf svona rólegur spurði ég ?
Nei, það voru nú læti í honum til að byrja með en svo róaðist hann nú, sagði ungmennið og var nú nokkuð ánægður með sig.
Ég horfði á hundinn þar sem hann leit ýmist á kindurnar eða eigandann, og íhugaði hvernig ég ætti að höndla málið.
Svo sagði ég unga manninum það að fyrir um 3 vikum hefði ég fengið hvolp í tamningu.
Algjöran skæruliða sem hefði umsvifalaust ráðist á hópinn tekið eina kindina fyrir og hangið í henni. Það hefði tekin 3 daga að venja hann af því í rólegheitum og nú gengi vel með hann. Hvarflaði ekki að honum að ráðast á kind við vinnuna.
Ég vissi ekki einu sinni hvernig ég ætti að fara að því að kenna honum það, ef ég vildi að hann tæki upp fyrri hætti.
Það vottaði fyrir skilningsleysi í augum unga mannsins sem vonlegt var.
Þá sagði ég honum að þegar hann hefði lagt af stað með ótaminn hundinn í vinnu með sér, hefði tamningin hafist hjá honum.
Nú væri hann búinn að kenna hundinum ágætlega að reka með sér.
En rétt eins og ég hefði vanið hvolpinn af skæruliðatöktunum , þannig hefði hann vanið hundinn algjörlega af því að fara fyrir hópinn og stoppa hann af.
Án þess að gera það yrði hundurinn lítils virði sem fjárhundur.
Trúlega hefði svo þessi dólvinna í rekstrinum slökkt á
einhverju af áhuga hundsins til að vinna við kindur.
Og hvernig reddar maður þessu, spurði sá ungi og var greinilega ekki að kaupa alvarleika málsins.
Ég leit á hundinn , svo á unga manninn og síðan aftur á hundinn.
Síðan sagði ég fullur ábyrgðar og trúnaðar í málrómnum.
Þú verður að fá þér velættaðan hvolp og temja hann áður en þú ferð með hann í vinnu.
Leit svo aftur á hundinn og bætti við.
Og svo áttu þarna fínan rekstrarhund sem bónus.
Skrifað af svanur