18.02.2014 08:05

Púkarnir ráðagóðu.


 Veist þú ekki allt um hunda Svanur minn sagði gamli maðurinn í símanum.

 Ég tók að sjálfsögðu ákaflega vel í það.

Sagðist vita heilmikið um hunda.  Það væri nú samt miklu meira sem ég vissi ekki um þá , því miður.

 Gamli maðurinn, kunningi minn lét þetta ekki slá sig útaf laginu. 

Hann fór að segja mér að hann, eða þau hjónin ættu " íslenskan "  hund.

 Ég vissi nú reyndar allt um það, því þó það væri langt á milli okkar þekkti ég vel til og reyndar hafði ég heyrt slæmar sögur af þessum hundi. Sígeltandi næstu nágrönnum til mikilla leiðinda og svo flæktist hann milli bæja í tíma og ótíma.

 Hann fór síðan að lýsa hundinum fyrir mér og segja mér ýmsar sögur um ágæti hans.

 Ég hlustaði þolinmóður þó ég gætti þess vel að ýta nú ekkert undir frásagnagleðina svo þetta tæki nú einhverntíma enda.

 Þannig að það gengur bara vel með hundinn spurði ég þegar ég komst að milli sagna hjá honum.

 Það dró snögglega niður í gamla manninum við spurninguna og það varð smá þögn í símanum.

 Svo sagði hann mér að það væri nú reyndar eitt smávandamál með hundinn.

 Hann hefði átt það til leggjast í smáflakk milli bæja en þau hefðu nú vonast til að það myndi eldast af honum.

Það hefði ekki gert það . Síður en svo.

 Nú væri orðin svo mikil óánægja með þetta í sveitinni að þetta gengi ekki lengur.

Þau væru  eiginlega búin að ákveða það að láta svæfa hundinn. 

Svo hefði þeim dottið í hug að tala við mig  og vita hvort ekki væri einhver leið til að venja hann af þessu.

Það var semsagt erindið  Svanur minn, sagði gamli maðurinn og var orðinn átakanlega dapur í málrómnum.

 Nú varð löng þögn í símanum.

Púkinn á hægri öxlinni  hvíslaði í eyrað á mér að nú skyldi ég stappa stálinu í gamla manninn og málið væri dautt  og allir ánægðir í sveitinni.

Púkinn á þeirri vinstri sagði mér að nú yrði ég að duga gömlu hjónunum og þeim "íslenska "
svo hann gæti lifað lengur, jafnvel þó nágrannarnir yrðu að umbera gjammið í honum einhver ár í viðbót.

 Það var vor í lofti, sólin skein og dagurinn hafði verið góður þar til síminn truflaði mig.

Þegar þögnin var orðin dálítið þrúgandi í símanum tók ég af skarið og sagði gamla manninum að ég kynni tvö ráð til að venja hundinn algjörlega af þessu.

Annað væri alveg 100 % öruggt. Að láta svæfa hundinn.

Hitt væri svona 97.5 % öruggt.   Að láta gelda hundinn.

 Og ég ítrekaði það til að firra mig ábyrgð að seinni aðferðin væri ekki alveg örugg.

 Ég skynjaði alveg gegnum símann hversu gamla manninu létti.

Við látum gelda hundinn sagði hann strax og spurði mig ekkert frekar út í vafatriði við þá framkvæmd. 

Við prófum þetta.

Og nú mátti hann ekkert vera að því að tala við mig lengur.

Hefur væntanlega viljað flýta sér að segja konunni sinni frá þessari vonartýru í myrkrinu.

Ári seinna var ég á ferð í þessari fjarlægu sveit og droppaði inn í kaffi hjá nágrönnum gömlu hjónanna.

Þar var tekið vel á móti mér að venju, drifinn í eldhúsið og gefið kaffi.

Síðan kom skammarræðan. Loksins þegar hafði tekist að tala gömlu hjónin á að drepa þetta helv. hundfífl hafði ég eyðilagt allt saman.


Ég reyndi að verja mig en tókst það illa sem von var en spurði þó hvort hundurinn hefði ekki hætt öllu flakki.

 Jú reyndar en það var ekki nóg.

Og húsbóndinn opnaði eldhúsgluggann og benti mér yfir til nágrannans.

Þar stóð gulur hundur í hlaðinu, í svona 400 m. fjarlægð og gelti upp í austangoluna.


Flettingar í dag: 1504
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806637
Samtals gestir: 65282
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:52:20
clockhere