22.02.2013 21:31

Að fara algjörlega í hundana .- Whiskýið og bjórinn.

 Eftir að hafa farið endanlega í hundana fyrir ekkert svo mörgum árum var stundum tekinn hundur í grunntamningu eða einhverja lagfæringu, ýmist fyrir kunningskap eða eitthvað málamyndagjald.

 Oftar en ekki varð svo ekkert úr tamningardýrinu og lagfæringarnar gengu til baka þegar kvikindin komu til síns heima aftur.

 Svo það var lokað í rólegheitunum á þetta.

Það hefur þó alltaf blundað í mér að gera bissnis úr þessu en að þurfa að treysta á vetrarfarið til útivinnu með hunda og fé er ekki árennilegt á Nesinu veðursæla.

Sumrinu tímdi ég svo ekki að eyða í svona djobb.


  Ein tamin og 6 nemendur í gönguferð dagsins. Einn þessarra nemenda hér er að vísu kominn í fæðingarorlof og síðan er einn fjarstaddur.

 Nú er hinsvegar allt að gerast í málaflokknum.

Í fyrsta lagi eru komnir viðskiptavinir sem tíma að borga fyrir tamningavinnuna ásættanlegt verð.

Í öðrulagi hafa framkvæmdir síðasta árs létt umtalsvert vinnu við daglegar gegningar.

Og í þriðja lagi og það skiptir alveg sköpum í málinu, kom útúr þessum framkvæmdum öllum, nothæf aðstaða til að vinna við hundana innanhúss ef/þegar lognið á Nesinu færi yfir ákveðin hraðamörk.




 Í dag er verið að vinna í 6 tilvonandi fjárhundum og þetta gengur framar öllum vonum.


Smali frá Miðhrauni  er fyrir löngu kominn á útivinnustigið en ágætt að skerpa á ýmsum skipunum inni, þegar þannig viðrar

Sé horft á þetta með augum verkkaupa, sýnist mér, ef tamningardýrið er óskemmt og vel ræktað, sé ekki spurning um að þetta er góð fjárfesting ef eigandinn einhverra hluta vegna temur ekki sjálfur.

 Um leið og þarf að fara að leggja vinnu í að laga eitthvað eða nemandinn er ekki gott efni að upplagi, fer spurningamerkjunum að fjölga um hvað borgar sig.

 Það er líka mikill munur á því að fá hund í tamningu( eða á námskeið) sem hefur verið alinn upp í guðsótta og góðum siðum, hlustar á mann og kann helstu hundasiði eða hinn sem hefur verið gefið að éta tvisvar á dag og síðan látinn ala sig upp sjálfur.

 Kannski bundinn úti allan daginn.


 Velheppnaður hvolpahittingur hjá Smalahundadeild Snæfellinga í feb. 2013

 Þó ofsagt sé, að ég sé með puttann á púlsi fjárhundaeigenda landsins þekki ég pínu vel til hér og þar.
 Það er umtalsverð vakning á því hjá sífellt fleirum að koma sér upp góðum hundi  og þeir eru sem betur fer  fjölmargir sem eiga góða eða frábæra hunda og eru velfærir um temja hundana sína sjálfir.


    Vaskur að sópa niður eftirlegukindum ú Hafursfellinu.

 Þeim fjölgar síðan svæðunum þar sem byggðin er með þeim hætti að það er gjörsamlega vonlaust að halda sauðfé nema með öflugum fjárhundum.


Já, þeir sem eru lunknir við að temja fjárhunda ættu að skoða það sem hlutastarf á ákveðnum árstímum.

 Ágætt til að fjármagna Whiskýið og bjórinn.

Og náttúrulega konudagsgjöfina fyrir hæstráðandann.

Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere