18.02.2013 20:00
Að láta gamlan draum rætast.- og sjá kraftaverk gerast.
Það er nú ágætlega hátt til lofts en ekki neitt rosalega vítt til veggja í" nýju " (eldgömlu) tamningarhöll Dalsmynnis sf.
Mér finnst þetta samt alveg gríðarlega flott aðstaða og nú séu mér loksins allir vegir færir í að gera góðan fjárhund úr göldum hvolpi á ásættanlegum tíma.
Þó það sé nú eins og fyrri daginn að ég er auðvitað alls ekki dómbær á eigin getu í málaflokknum.
Þó mér finnist nú best að vera einhversstaðar undir beru lofti á víðáttumiklu svæði, er orðið ljóst að það er ekkert mál að vinna stóran hluta grunnkennslunnar í þessari aðstöðu.
En eins og alltaf, verður að gæta þess að halda fjölbreytileika/skemmtilegheitum og gera vinnulagið ekki of þröngt í innivinnunni.
Ég hef aldrei áður haft eins mikið umleikis í hundatamningum og síðustu 2 vikurnar og þetta er ekki leiðinlegt enn sem komið er.
Þó nemendahópurinn sé ekki alveg fullkominn eru þarna virkilega góð og skemmtileg efni og engin leiðindi í gangi.
Það var óvanaleg og rosalega skemmtileg upplifun í dag, að horfa uppá 15 mán. dýr sem nánast sá ljósið í kennslustundinni. Breyttist úr gjammandi taugaveiklun framaní kindunum í ágenga yfirvegaða tík sem óð viðstöðulaust framaní kindurnar ef þær ógnuðu henni.
Ég á von á því að sjá vinnulagið breytast hratt næstu dagana úr hálfgerðum leikhasar í alvöruvinnu að hætti foreldranna, sem mun fullkomna kraftaverkið. 7- 9- 13.
Þetta var ekki seinna vænna hjá dömunni, því það var farið að styttast í annan endann á skilorðinu.
En ég er varla farinn að koma við jörðina ennþá.
Skrifað af svanur