13.02.2013 08:07
Að lesa hundinn, - og eigandann.
Mér er sagt að þú horfir bara á hvolpinn í nokkrar mínútur í kindum og segir svo hvort hann verði nothæfur eða ekki sagði konan í símanum.
Ég velti því fyrir mér hvort heimildamaður viðmælandans hefði jafnframt bætt við að ég bullaði svo bara einhverja vitleysu sem ýmist rættist eða ekki, og tók því mjög varfærnislega undir þessa staðhæfingu.
Ef konan sem hringdi í mig til að spjalla um upprennandi fjárhund sem hún átti, hefði hinsvegar látið þessa ógetið, myndi ég hafa fullvissað hana um að með því að sjá hvolpinn vinna eða atast í kindum í 10 - 15 mín. mætti auðveldlega sjá hvað byggi í honum.
Síðan hefði henni auðvitað verið bent á að ef réttur vinnuáhugi væri ekki kominn. hvolpurinn verið skemmdur i uppeldinu eða orðið fyrir einhverju áfalli í umgengni við önnur dýr o.sv.frv. kæmi lítið sem ekkert útúr svona spámennsku.
Alltaf að hafa útgönguleiðina opna í þessum bransa.
Á sunnudaginn kom þetta myndefni hér fyrir ofan, til mín í tamningu. Þetta er Spaði frá Dalsmynni , undan Dáð og Tinna.
Fyrir nokkurnveginn ári síðan var hann afhentur nýjum eiganda átta vikna gamall og er því eðli málsins samkvæmt 14 mán.
Það er alltaf gaman að fá á svæðið hund sem hefur alist hér upp fyrstu mánuðina.
Þó ekki sé hægt að merkja að hann þekki hvorki mig eða hundana sem hann lék við fyrir ári síðan er samt eins og hann þekki allar aðstæður og skemmtilegt að kallflautinu mínu sem hann hafði ekki heyrt í ár hlýddi hann umsvifalaust.
Eigandinn hafði nokkrum sinnum farið með Spaða í kindur innandyra og benti mér á að hafa með mér nesti ef ég ætlaði að sleppa honum í kindur á víðavangi. Ég stóðst samt ekki freistinguna og fór með hann út á tún morguninn eftir.
Þrátt fyrir mikinn áhuga og stutta endurnýjun fyrri tengsla okkar Spaða, hlýddi hann kallflautinu umsvifalaust og yfirgaf kindahópinn.
Eftir um 15 mín. kindaat mat ég hann þannig að þetta gæti orðið ákveðinn eða mjög ákveðinn hundur, með mikinn vinnuáhuga og meðfætt gott eða mjög gott vinnulag.
Hlýðnin er/verður góð.
Í vinnu yrði hann yfirvegaður og ætti gott með að hafa stjórn á kindum við margvíslegustu aðstæður.
Hann ætti að geta orðið mjög öruggur í löngum sendingum og myndi ekki skilja eftir kindur sem hann á annað borð kæmi auga á.
En þó að ég sé spámannlega vaxinn er kannski rétt að benda á, að það auðveldar spána nokkuð að hafa tamið og notað báða foreldrana.
Svo er auðvitað morgunljóst ef spáin klikkar, þá verður það að sjálfsögðu eigandanum að kenna.
Skrifað af svanur