07.02.2013 08:10
Að umhverfisvenja, - eða ekki.
Eitt af grundvallaratriðunum í hvolpauppeldinu er að umhverfisvenja hvolpinn um leið og hann eldist. Það sást t.d. vel á hvolpahittingnum á dögunum hvaða þýðingu það hefur.
Það þarf líka að ala sauðféð rétt upp til þess að gera lífið vandræðaminna.
Í gær voru gemlingarnir teknir í einkatíma til að hundvenja þá.
Óþarft er að taka fram að þeir sem eru að rækta fjárstofna sem ekki eiga að skila sér til byggða fyrr en að loknum hefðbundnum leitum, ættu að sleppa þessu.
Tömdu hundarnir eru yfirleitt teknir í þetta en ég stóðst ekki freistinguna og tók Smala með Dáð, en þetta var fyrsta alvöruvinnan hans á ferlinum.
Vandamálið við að temja hunda á ótömdu fé, er að ef þeir þurfa að vinna ofan í því, getur tapast ásættanleg vinnufjarlægð. Það fer enn nettur hrollur um mig, þegar tamningin á fyrstu hundunum mín rifjast upp.
Hér er staðan hinsvegar að verða fín, enda gemsarnir búnir að kynnast alvöru lífsins við ragið í haust. Svellin á auðu blettunum voru samt ekki til bóta.
Hérna var Dáð komin til hlés og Smali fékk góða lexíu í smalafræðunum.
Það er svo ekki hægt að kvarta undan tamningarveðrinu það sem af er nýju ári en nú á samt að drífa inniaðstöðuna í gagnið í þessari viku.
Þið munuð óhjákvæmilega fá eitt hundablogg í viðbót í tilefni þess.
Skrifað af svanur