31.12.2012 15:41
Norðanhvellur og áramótasmal.
Það skiptir litlu hvaða tegund náttúruhamfara angrar okkur skerbúa, þær sýna okkur allar hversu lítil við erum þegar á reynir. Þó slæmt veður setji allt úr skorðum gengur það þó yfir á einhverjum og oftast tiltölulegu skömmum tíma á meðan t.d. eldgos reyna verulega á þolrifin.
Norðan hvellurinn nú náði ekki sömu hæðum hér og sá í nóvemberbyrjun, sá var nú reyndar með þeim ítækari í nokkur ár. Reyndar náði þessi sér því betur upp sem vestar dró á Nesinu.
En þessir helv. rokhvellir eru samt alltaf hundleiðinlegir.
Hér hékk rafmagnið að mestu inni og varastöðin sem er alltaf til taks er sem betur fer sjaldan notuð síðustu árin.
Það hefur ekki gert almennilegan snjóbyl hér það sem af er vetri og þó maður þjáist með þeim sem fá mjög ríkulega úthlutun af slíkri óáran þennan veturinn er þeim engin hjálp í því.
Það er fastur liður hér í púkki með Hestamiðstöðinni í Söðulsholti, að bjarga hrossum í aðhald fyrir ólæti síðasta kvölds ársins og svo er enn, þrátt fyrir skítaveður.
Það var rekið inn úr þremur hólfum.
Eftir nákvæmar vísindalegar rannsóknir á einni umferðaræðinni var ekki lagt í að taka inn úr fjórða hólfinu en farið verður í sértækar aðgerðir með hrossin þar, fyrir kvöldið.
Þarna munu þessi eyða nóttinni í upplýstu hólfinu og trúlega róandi músík í eyrunum.
Og nú sér fyrir endann á barnsburðarleyfi tamningarfólks og fyrstu hrossin verða tekin inn á morgun í Hestamiðstöðinni.