28.12.2012 08:31

Rörtengur, sleggjur og tölvufídusar

 Stundum lítur maður um öxl og sér þá gjarnan hlutina í vandamálalausum hillingum.

Lífið var einfalt, ef dráttarvélarnar fengu olíuna sína áður en tankurinn tæmdist gengu þær. Það var skipt um smur og koppar smurðir svona eftir hentugleikum kannski árlega .

 Ef eitthvað bilaði komu skiptilykillinn og rörtöngin sér vel og sleggjan og meitillinn ef þau dugðu ekki.

 Nú er öldin önnur, þægindin komin úr öllu hófi og skiptilykillinn og rörtöngin ryðga uppá vegg. Nú eru það rafmagnsfídusarnir sem gera manni lífið leitt milli þess sem þeir virka.

Ekkert tæki til sem ekki er búið tölvum í bak og fyrir og ýti maður á vitlausan takka er allt komið í botnlausar skelfingar,

 Ein af þessum tölvuvæddu græjum er mjaltabásinn sem verður að skila sínu tvisvar á sólarhring allan ársins hring.



 Þetta fyrirbæri er í mjaltabásnum og um leið og kýrin kemur í básinn kemur númerið hennar fram á skjánum og þar getur maður kallað fram allar upplýsingar um hana ef vill. Nythæð er skráð sjálfvirkt inn ásamt mjaltahraða og ef hún er á lyfjameðferð eða á ekki að mjólkast saman við, sér græjan um það að ekki er hægt að setja tækið á  kúna o sv. frv.

 Þessi  8 ár sem mjaltabásinn hefur verið í notkun held ég að einungis einu sinni hafi þurft að brenna í bæinn eftir varadælu svo hægt væri að ljúka mjöltum.



Til að tryggja öryggið sem best er þjónustuaðilinn fenginn einu sinni á ári að yfirfara allt dótið og þar er sett upp og haldið utanum prógramm sem tryggir viðhaldskerfið eins vel og hægt er.

 Því það er ekki nóg að básinn gangi sína 365 daga á ári heldur verður allt að virka rétt svo spenar og júgur verði sem mest til friðs.



 Þjónustugengið frá Jötunn Vélum mætti í gær og þó þetta árið væri ekki um " stóra " yfirhalningu að ræða rétt entist dagurinn þeim í verkið.



 Og þegar allt gengur smurt er bara býsna gott að byrja daginn á þessum vinnustað.
 
En  kaupið mætti auðvitað vera hærra og frídagarnir fleiri.
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere