04.11.2012 21:12
Lognmolla og lausar skrúfur.
Af sérstökum ástæðum var árlegri haustgöngu minni um þök Dalsmynnisbygginganna með hamar í hendi og þaksaum í vösum ólokið þetta árið þegar allt fór að gerast.
Og ekki nóg með það.

Þegar þakjárninu var komið á nýbygginguna með miklum látum þrutu sérstakar skrúfur sem notaðar voru vegna stállangbandanna.
Illa hafði gengið að ná þeim á svæðið, bæði vegna kæruleysis, leti og ýmissa annarra óviðráðanlegra orsaka.
Ekki var það til að bæta stöðuna að dregist hefur að afgreiða vélgengu hurðina svo húsið myndi ganga í gegnum illviðrið svona nokkurnveginn opið í annan endann.
Það var náttúrulega byrjað á því að vona að þetta yrði nú ekki svo slæmt veður. Ekkert að marka þessa ........ veðurfræðinga.
Því miður kom í ljós nú brást þeim ekki spámennskan og í ljósi þess hvernig nýja þakið hékk á lýginni fyrsta sólarhringinn var ljóst að nú yrði eitthvað að gerast.
Það var frændi minn hjá Límtré- Vírnet sem skrapaði saman ýmsar skrúfur sem gætu hugsanlega bjargað málinu. Bjöggi vinur minn á Austurbakkanum greip þær með sér úr Borgarnesi og ég var síðan settur upp í traktorsskóflu og ekki hleypt niður aftur fyrr en þakjárnið var þéttskrúfað niður á neðsta langbandinu. ,
Það er óhætt að segja að gustaði um mig þá stundina.
Og önnur þök svæðisins bjuggu trúlega að árlegum haustgöngum mínum undanfarin ár og lögðu ekki í langferð í þetta sinn.

Það þekkja margir hversu veðrið getur snarversnað við að komst upp í ákveðna hæðarlínu t.d á fjallvegum og ég hef kynnst því rækilega hvað maður getur orðið lítill við slíkar aðstæður. Ég hefði ekki viljað vera staddur ofan snjólínunnar hér fyrir ofan þegar mest gekk á þessa daga.

Í dag kom svo lognið á eftir storminum við almenna ánægju mína og þessarra slöku sauðkinda sem voru búnar að stelast aftur í nýræktina eftir að hafa eytt rokdögunum á skjólsælla svæði. Eins og myndin ber með sér fylgdi engin eða sáralítil snjókoma veðrinu hér neðra.
Hjá aðalbloggara Austurbakkans í fjarska hefur hinsvegar greinilega verið bruðlað meira með snjóinn.
Skrifað af svanur