26.07.2012 07:47

Lagt út á þjóðveginn.

 Það fór aldrei svo að sumarið liði án þess að kampernum væri ekki skellt á pallinn og dólað út á þjóðveginn.


 Við Systrakot á Hjalteyri.

Það eru tvær meginreglur á slíku ferðalagi. Ekki stoppa í sjoppum og forðast hefðbundin tjaldstæði ef mögulegt er.

 Fyrra markmiðið hrundi um leið og leiðsögumaður ferðarinnar dró upp " vegabréf " frá dótturdótturinni. Sú hafði náð samningum við ömmuna um að safna stimplum  fyrir sig í öllum N 1 sjoppum sem á leið hennar yrðu.

 Stimpillinn fékkst svo ekki nema verslað væri fyrir 300 kall svo þetta þýddi óbein útgjöld og það að ýmis óhollustu lenti í bílnum sem þýddi aftur freistingar sem að sjálfsögðu var fallið fyrir.

 Þessum ferðamáta fylgir hinsvegar mikið frjálsræði og skipulagsleysi sem hentar undirrituðum afar vel þegar markmið númer eitt er að elta sólina.

 Það var ekki farið af hringveginum fyrr en kom að Svartárdal en það er alltaf dálitil upplifun að dóla þar inneftir og spá í búsetuna en þarna held ég að mér myndi finnast dálítið þröngt um mig i búskap. En Svartáin vegur kannski eitthvað upp á móti skorti á láglendi.


 Þetta fyrrverandi húsnæði á Bergstöðum hefur munað sinn fífil fegri en ekki kann ég skil á krossinum og grjóthleðslunni framan við það . Kannski einhver lesandinn geti upplýst um það.( sjá athugasemdir).



 Bergstaðarkirkja féll einhvernveginn vel inní dalinn og er greinilega vel haldið við.



 Hvort þetta er heilsárshús eða sauðburðaraðstaða er svo spurning sem ekki verður svarað hér.



 Þessi margstofna Ösp stóð við hliðarveginn að Stafnsrétt og Kiðaskarði. Hún hefur eflaust átt óblíða æsku. Þann veg tók ég í þetta sinn en næst mun ég fara aðalveginn áfram upp á hálendið.



 Stafnsrétt er alltaf sérstakt augnayndi og einhverntímann fyrir margt löngu þegar ég gaf mér tíma í allskonar grúsk lá ég yfir sögnum og sögum um viðburði þar bæði gamanmál og slysa og hrakfarasögur.

Þetta er í þriðja sinn sem Kiðaskarð, sem liggur á milli
Svartárdals og Skagafjarðar er farið og jafnoft hef ég heitið því að fara þennan andskota ekki aftur. Á leiðinni upp snarbratta sneiðingana frá Stafnsrétt fékk ég það hvað eftir annað á tilfinninguna að nú myndi Kamperinn skríða aftur af pallinum. Svo illa fór þó ekki.



Eftir góða gistingu á Goðdalafjalli var dágóðum tíma eytt í samgöngusafninu í Stóragerði.

Virkilega gaman að stoppa þar.

 Það hefur verið meira ævintýrið að slá á þessum tún og engi sem trúlega hafa verið misjöfn yfitferðar.



 Hér var Miklilax í Fljótum með mikla starfsemi á tímum laxeldisævintýrisins. Nokkur kenntöluskipti dugðu því ekki til lífs en þarna skilar sér á staðinn mikið magn af heitu vatni sem gæti boðið uppá einhverja möguleika einhverntímann.


 Hér var staldrað við hjá fallegum fossi innarlega í Svarfaðardal. Ef myndin er skoðuð vel sést huldukonan sem kom til mín úr klettinum þarna.



Þetta áhugaverð skjal var á samgöngusafninu í Stóragerði og minnti óþyrmilega á gengna tíð sem kemur aldrei aftur.

Eða hvað??????????
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere