01.07.2012 22:41

Þurrkasumur og fullir og tómir vatnstankar.

 Það hefur varla mælst úrkoma hér síðustu 5 vikurna. 3- 4 mm eða svo.

 Sól og þurrkur, þurrkur og sól.

  Nú er fyrstu heytörninni lokið eða því af fyrri slætti sem er ætlað kúm, og kindum á fengitíma og sauðburði.



 Þessi mynd lýsir ágætlega veðrinu síðustu vikurnar. Ofurbjart og allt orðið skrælþurrt. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum sem ég sel nákvæmlega jafndýrt og ég keypti þær er þetta sjötta þurrkasumarið í röð og margir halda eflaust að svona eigi þetta að vera.
 Það er trúlega rétt en það eiga samt eftir að mæta rigningasumur á ný hvenær sem það verður.

 Já, uppskeran er góð, vel yfir meðallagi þrátt fyrir þurrkana enda eru samkvæmt mjög áreiðanlegum heimildum ( o.sv.frv.)  mýrartúnin hjá mér og fleirum eins og vatnstankar sem gera rigningar óþarfar vikum saman, ef áburður er á annað borð uppleystur þegar þurrkur brestur á. Þ.e.a.s ef túnin eru vel vatnsmettuð að vori.

 Fari rigningin úr böndunum eins og hún gerir á alvöru rigningarsumri kynnast mýrartúnsbændur aftur á móti því hvernig er að keyra  á vatnstanki með grasrót ofaná í staðinn fyrir lok.



 Og kornið er farið að skríða á ökrunum sem fyrst var sáð í, samt ekki svona hressilega og á þessari mynd sem var tekin í júlílok 2010.
  
 Rigningin sem búið var að spá í dag á víst að koma á morgun ? og þar sem áburður fyrir seinni sláttinn er kominn á tún er eins gott að hún skili sér og það almennilega.

Annars verða ónefndir veðurfræðingar illa haldnir af hiksta á morgun.


Heimild, Jónatan Hermannsson.
 
Flettingar í dag: 240
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 449
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 722886
Samtals gestir: 61213
Tölur uppfærðar: 28.1.2025 04:06:09
clockhere