04.06.2012 20:45

Vaskur. - Talstöðvar og tæknileg vandamál.

 Það var verið að leita Rauðamelsfjallið.

 Þetta var seinna haustið sem Vaskur var með talstöð sem aukabúnað og þar sem ég var einnig í sambandi við 2 félaga mína þurfti ég að skipta um rás eftir því hverjum skyldi tuða í.


 Þarna að vísu í öðru tilefni en talstöð í hálsbandinu var notuð með góðum árangri í tvö fyrstu haustin.

 Við vorum efstir í vesturfjallinu og þar sem var vanmannað sem endranær var langt á milli okkar þriggja sem vorum samhliða þarna niður. Ég var sá eini sem sá oftast yfir svæðið og sagði því félögunum til eftir þörfum, enda sáu þeir ekki alltaf hvorn annan.

 Efst fyrir ofan mig endaði hlíðin á löngum kafla í mikilli grjóturð og þó urðin væri víðast ekki fær nema fuglinum fljúgandi voru þó á einstaka stað einhverjir krákustigar sem féð sótti í til að sleppa úr leitinni.


 Þetta er nú yngri mynd með aðra og öðruvísi hunda en grjóturðin er sú sama.

 Ég þurfti að vera 1-200 m.neðan brúnarinnar svo ég sæi félagana en Vaskur var oftast talsvert ofar og framar en þarna lagði ég mikla áherslu á að ná fénu beint niður hlíðina í veg fyrir félagana því leitarsvæðið átti eftir að breikka verulega og verða vandleitaðra.
 Þarna kem ég fram á hæðarbrún og sé um 10 kinda hóp talsvert framar og ofar .
  Það er stoppað og ákveðið  að senda Vask umsvifalaust upp og framfyrir þær áður en komi styggð að þeim.
Talstöðin tekin upp og skipunin-"hægri, hægri upp"- gefin, lágri ákveðinni röddu.

Ekkert gerist,  Vaskur stoppaður eins og ég bíðandi eftir að e.h. gerist.
Skipunin er endurtekin enn ákveðnar en ljóst að hundurinn er dottinn út.

Ég leit á talstöðina og krossbölvaði þegar ég sá að smalarásin var inni, skipti yfir og endurtók skipunina. Nú var kominn smá stresstónn í röddina enda tók Vaskur mikið viðbragð, hækkaði sig upp að urðinni og sá kindurnar stuttu seinna.

Hann þurfti ekki frekari fyrirmæli, gaf aðeins í og fylgdi urðinni þar til hann var kominn framfyrir kindurna sem urðu hans ekki varar fyrr en þá.

 Ég stillti hann af og lét hann fylgja hópnum .þannig að þær lentu innan við gil sem þær fylgdu síðan þar til þær komu að götu yfir það og þar með komnar í leitina hjá næsta manni.

 Nú fór ég að huga að félögum mínum.

Þeir höfðu greinilega meðtekið hægri skipunina fljótt og vel því báðir höfðu tekið 90° beygju upp hlíðina og höfðu sitthvað að segja við mig þegar  ég var búinn að skipta yfir á þá aftur.
Flettingar í dag: 504
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 705455
Samtals gestir: 60664
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 10:50:11
clockhere