01.06.2012 08:25

Sólin skín, refastofninn í lágmarki og hriktir í hestamennskunni.

Suma dagana er logn. Aðra daga  er mismunandi mikill hraði á því.

En sólin skín- og skín. Samkvæmt langtímaspá mun svo verða enn um sinn.

 

 Túnin sem eru slegin síðast eftir að hafa sprottið hæfileg úr sér, til að henta fyrir útigang og sauðfé um miðjan veturinn, fengu áburðinn sinn í gær. Það var ekki lagt í að bera á fyrir miklu rigninguna um hvítasunnuna. Ef þurrkurinn helst eitthvað frameftir júní eiga menn eflaust eftir að sjá eftir því.
 
 Önnur tún eru á fleygiferð þrátt fyrir þurrkinn og stefnir í slátt með fyrra móti ef kuldarnir frá í fyrra verða ekki vaktir upp.



 Lömbin blása út og ærnar blása nú reyndar líka þegar hitinn er kominn úr öllu hófi, logndagana.

Þær eru farnar að liggja við hliðið og vilja fara að komast á fjöll.

Ég hef mikinn skilning á því en held að vanti aðeins á gróðurinn en prófsteinninn er nú alltaf sá að sleppa hóp og hóp og vita hvort þær koma til baka niður í hlíðina eftiur nokkra daga.

 Þessi kvöldin er tekinn rúntur um svæðið og athugað hvað sést af lágfótu.

Bæði til að átta sig á hvar sé von á grenjum og fækka gelddýrunum aðeins.



 Það hefur fækkað um 3 síðustu kvöldin og eitthvað til enn. Samt er rólegra yfir tófuslóðunum nú en oft áður.



 Atli og Pína unnu fyrsta minkagrenið í gærkveldi frá því að minkaveiðiátaki lauk á Snæfellsnesi . Það var á útjaðri þess svæðis og nú er að vita hvernig gengur að lágmarka fjölgun á því svæði innan sveitarfélagsins.



 Það er ekkert farið að huga að járningum enn og ýmsar blikur á lofti með það þetta sumarið.

Það er gamalkunnugt vandamál að þegar áhugamálin eru of mörg og tengjast svo vinnunni í þokkabót þá hriktir einhversstaðar í.
Flettingar í dag: 504
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 705455
Samtals gestir: 60664
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 10:50:11
clockhere